Fréttasafn



12. jún. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Öflug grasrót í tölvuleikjaiðnaði

„Það er gróska í tölvuleikjaiðnaðinum hér á landi og grasrótin er öflug. Það skýrist að mörgu leyti af umhverfinu sem greinin starfar í. Þar hefur margt batnað undanfarin ár, en þó er enn margt fyrir stefni.“ Þetta segir Vignir Örn Guðmundsson, sérfræðingur á hugverkasviði SI, formaður Samtaka íslenskra leikjaframleiðenda (IGI) og einn af stofnendum tölvuleikjafyrirtækisins Radiant Games, í viðtali Snorra Páls Gunnarssonar í sérblaði Viðskiptablaðsins, Frumkvöðlar. Vignir segir einnig að gróskuna megi að miklu leyti rekja til háskólasamfélagsins. „Nokkur fyrirtæki hafa orðið til úr verkefnum í háskólum landsins undanfarin ár. Samstarf iðnaðarins og háskóla er gott og þá sérstaklega milli Háskólans í Reykjavík (HR) og CCP. Einnig undirrituðu Háskóli Íslands og CCP samstarfssamning í maí. Til dæmis er tölvunarfræðideild HR með áherslusvið þar sem einblínt er á þróun tölvuleikja, og var David Thue, aðstoðarprófessor við deildina, ráðinn þangað með aðkomu CCP.“ 

Í viðtalinu bendir Vignir einnig á að ýmis fyrirtæki hafi orðið til út frá CCP undanfarin ár, sem hafi eflt grasrótina. Þar segir jafnframt að á örfáum árum hafi íslenskur leikjaiðnaður tekið stakkaskiptum eins og hendi væri veifað. Í upphafi 21. aldarinnar var tölvuleikjaiðnaður varla starfandi hér á landi, en á síðasta ári töldust til þessa iðnaðar um átján fjölbreytt fyrirtæki. Stærsta fyrirtækið á markaðnum er CCP, sem þróað hefur leikinn EVE Online og veltir um 90% af heildarveltu iðnaðarins. Þar fyrir utan eru minni og yngri fyrirtæki á markaðnum, einkum nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Vöruframboð þessara fyrirtækja er mismunandi og tilgangur leikjanna þar af leiðandi ólíkur, en markmiðið getur verið skemmtun eða spilun í leik, námi eða starfi.

Í viðtalinu er sagt frá Samtökum íslenskra leikjaframleiðenda, IGI, sem stofnuð voru af tíu leikjafyrirtækjum árið 2009 en samtökunum er ætlað að vera öflugur vettvangur sem veitir leikjaframleiðendum stuðning og margvíslega þjónustu. Hlutverk samtakanna er einnig að stuðla að auknu samstarfi hagsmunaaðila og gera Ísland að vænlegum áfangastað fyrir erlenda sérfræðinga í leikjaiðnaði. 

Nánar á vef Viðskiptablaðsins