Fréttasafn



6. jan. 2023 Almennar fréttir

Öflugur iðnaður grundvöllur að bættum lífskjörum

Árni Sigurjónsson formaður SI sendi félagsmönnum Samtaka iðnaðarins kveðju í upphafi nýs árs þar sem hann segir meðal annars að liðnu ári, sem var tileinkað grænni iðnbyltingu á vettvangi Samtaka iðnaðarins, verði minnst fyrir margra hluta sakir. Það hafi verið allt í senn; viðburðaríkt, sveiflukennt, krefjandi og átakamikið. Upphaf þess hafi markast af aðgerðum gegn útbreiðslu kórónuveirunnar og samkomutakmörkunum, allt þar til öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum hafi loks verð aflétt þann 25. febrúar. Hann segir að þetta tímabil virðist okkur nú flestum órafjarri og komi vonandi aldrei aftur.

Árni segir að það sem á eftir hafi gengið markist fyrst og fremst af innrás Rússa í Úkraínu þann 26. febrúar og því dapurlega stríði sem þar geisar enn og ólgu í efnahagsmálum í heimsbúskapnum, sem stríðið magni upp, og við höfum ekki farið varhluta af hér á landi. Hann segir að illa gangi að vinna bug á verðbólgu þrátt fyrir verulegar vaxtahækkanir hjá seðlabönkum um heim allan. Fjármagnskostnaður hafi þannig aukist gríðarlega á skömmum tíma og verðlag sömuleiðis, þrátt fyrir einbeittan vilja þeirra sem að málum koma um áframhaldandi stöðugleika. Fjármálamarkaðir beri þessu ástandi vitni þar sem ávöxtun hlutabréfa og skuldabréfa hafi almennt verið neikvæð á árinu eftir mörg gjöful ár í röð á þeim vettvangi. Þá hafi miklar sveiflur einkennt gjaldeyrismarkaði og gengi íslensku krónunnar gefið verulega eftir gagnvart helstu viðskiptamyntum upp á síðkastið.

Árni segir jafnframt að réttilega hafi verið bent á góða stöðu Íslands og íslensks efnahagslífs í alþjóðlegum samanburði, þar sem ekki ríki orkukreppa hér á landi og verulegan hluta innlendrar verðbólgu megi skýra með hækkunum á fasteignamarkaði, sem helgist fyrst og fremst af framboðsskorti á nýju húsnæði. „Okkur er í lófa lagið að bæta þá stöðu fljótt og vel, eins og við höfum ítrekað bent á mörg undanfarin ár. Þá er þrátt fyrir allt útlit fyrir hagvöxt hérlendis á árinu á meðan stærstu hagkerfi heimsins; Bandaríkin, Kína og Evrópusambandið, hafa snöggkólnað og útlit fyrir lítinn sem engan vöxt – eða jafnvel samdrátt. Eðli okkar innflutningsdrifna hagkerfis veldur því að ástand mála utan landssteinanna mun alltaf hafa veruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf og því ríður á að ná eins góðri stjórn á innlendum orsökum verðbólgunnar og unnt er til að þrýsta henni niður.“

Í niðurlagi kveðjunnar segir Árni að nýja árið verði vafalítið ekki síður krefjandi en það ár sem nú sé liðið. Flest teikn á lofti bendi til þess að stórar áskoranir bíði okkar flestra. Því ríði á að tryggja áfram hátt atvinnustig og vernda þau bættu lífskjör sem hagvaxtarskeið á síðasta áratug hafi skilað. „Þrátt fyrir allt lít ég björtum augum á árið því ég skynja alls staðar mikla samstöðu um að komast í gegnum skaflinn. Íslenskt atvinnulíf hefur aldrei verið fjölbreyttara og útflutningsstoðirnar öflugri, ekki síst með vexti hugverkaiðnaðar og nýsköpunar almennt. Ég hlakka því til þeirra verka sem bíða og veit sem er að árangurinn mun ekki láta á sér standa því öflugur og framsækinn iðnaður er grundvöllurinn að bættum lífskjörum og sterku efnahagslífi.“

Hér er hægt að nálgast kveðju Árna til félagsmanna SI.