Fréttasafn



9. okt. 2025 Almennar fréttir Mannvirki

Öflugur iðnaður grunnstoð lífsgæða og öryggis

Á óvissutímum hefur mikilvægi öflugs iðnaðar komið mjög skýrt í ljós. Heimsfaraldur og truflanir í aðfangakeðjum sýndu okkur hversu viðkvæm við getum verið. Fjölbreyttur iðnaður styrkir viðnámsþrótt þjóðarinnar, hann tryggir að við séum ekki alfarið háð innflutningi og að við getum brugðist hraðar við breyttum aðstæðum. Sterkur iðnaður er ekki aðeins efnahagslegt hagsmunamál, heldur beinlínis þjóðaröryggismál. Þetta segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, meðal annars í Sóknarfæri. 

Hún segir að iðnaður á Íslandi skapi gríðarleg verðmæti, leggi sitt af mörkum til útflutningstekna og lífsgæða landsmanna. „Skattspor iðnaðarins er umfangsmikið og endurspeglar mikilvægi greinarinnar í hagkerfinu. Heildarskattspor iðnaðarins nam 464 milljörðum króna árið 2023 samkvæmt nýlegri greiningu sem unnin var fyrir Samtök iðnaðarins. Þröngt skattspor iðnaðarins sem er án virðisaukaskatts nam 220 milljörðum króna, til samanburðar er þröngt skattspor ferðaþjónustu 107 milljarðar og sjávarútvegs 89 milljarðar. Skattspor iðnaðarins er því stærst allra útflutningsgreina. Þetta sýnir að greinin á ekki aðeins stóran þátt í verðmætasköpun hagkerfisins heldur ber einnig uppi stóran hluta af rekstri hins opinbera.“

Þá kemur fram í viðtalinu að verðmætasköpun iðnaðarins hafi verði 900 milljarðar króna í fyrra sem er um fjórðungur landsframleiðslunnar. „Auk þess er iðnaðurinn stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins með 750 milljarða í útflutningstekjur í fyrra sem jafngildir 39% af heildarútflutningstekjum hagkerfisins. Jákvæð áhrif iðnaðarins eru í raun meiri þegar horft er til þess að greinin er m.a. að byggja upp innviði, skapa vörur og veita þjónustu sem nýtist öðrum greinum hagkerfisins.“

Hér er hægt að nálgast Sóknarfæri og lesa viðtalið í heild sinni.

Soknarfaeri-07-10-2025