Fréttasafn31. mar. 2015 Menntun

Öflugur liðsauki til Samtaka iðnaðarins

Þrjár öflugar konur hafa ráðist til starfa hjá Samtökum iðnaðarins. Elínrós Líndal Ragnarsdóttir, Björg Ásta Þórðardóttir og Jóhanna Klara Stefánsdóttir.

Elínrós var stofnandi og forstjóri tískufyrirtækisins ELLA, hún hefur starfað sem blaðamaður er með BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu í  stjórnun og fyrirtækjarekstri frá Háskólanum í Reykjavík. Elínrós tekur við nýrri stöðu sem viðskiptastjóri á hugverka- og þjónusviði og mun hafa umsjón með hugverkahópum innan SI og stýra verkefnum þeim tengdum.

Björg Ásta lauk mastersprófi í lögfræði frá HÍ og starfaði sem lögfræðingur hjá Félagi atvinnurekenda þar sem hún sinnti einkum málum á sviði vinnuréttar, tollaréttar og samninga- og kröfuréttar. Starf hennar sem lögfræðingur SI felst í ráðgjöf og aðstoð við félagsmenn, svo sem varðandi iðnlöggjöf, vinnurétt, fyrirtækjalöggjöf, samkeppnislög, útboðslög, ábyrgðarmál og verksamninga.

Jóhanna Klara er ráðin viðskiptastjóri á framleiðslu- og matvælasvið SI. Hún lauk grunn- og meistaranámi í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík og stundar nú nám í APME verkefnastjórnun. Jóhanna Klara var í starfsnámi hjá Einkaleyfastofu og starfaði nú síðast hjá Embætti umboðsmanns skuldara sem hópstjóri á samningasviði embættisins.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI fagnar þessum öfluga liðsauka: „Við hjá SI erum í markvissri vinnu við að breyta skipulagi og skerpa á stefnu samtakanna. Hluti af því ferli er að mynda þrjú ný svið innan samtakanna, hugverka- og þjónustusvið, bygginga- og mannvirkjasvið og framleiðslu- og matvælasvið. Þessi góða viðbót við starfsmannahóp SI mun skila sér í markvissari vinnu og betri þjónustu við félagsmenn.“