Fréttasafn



11. nóv. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Ófremdarástand í vegakerfinu á Íslandi

Rætt er við Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóra Colas og formann Mannvirkis - félags verktaka innan SI, í Spengisandi á Bylgjunni. Það er Kristján Kristjánsson sem ræðir við Sigþór um vegaframkvæmdir og stöðvun á útboðun hjá Vegagerðinni. hann segir að það sé ófremdarástand í vegakerfinu á Íslandi eins og staðan sé núna og verkefnin óteljandi sem eru framundan.  „Ef þarfirnar ættu að vera uppfylltar þá þyrfti auðvitað Vegagerðin í fyrsta lagi að vera með viðhaldsfé fyrir þeirri þörf sem þau telja að sé lágmarkið sem er þá átján til tuttugu milljarðar ef það ætti að fara að ganga á skuldina enn meira.“

Ófjármagnaðar vegaframkvæmdir

Í viðtalinu kemur fram að samgöngusáttmálinn sé framkvæmd upp á þrjú hundruð milljarða króna .„Sem geta verið einhverjir fimmtán milljarðar á ári. Síðan hlyti það að vera eitthvað annað eins í þessum almennu verkefnum um allt land plús svo jarðgöngin sem er stóri draumurinn. Við sjáum í samgönguáætlun að innviðaráðherra og stjórnmálamennirnir hafa sett þar verkefni næstum upp á 200 milljarða á næstu fimmtán til átján árum. Þar af eru Fjarðarheiðargöng upp á 46 milljarða og önnur göng upp á 140 milljarða.“ Sigþór segir að þetta sé allt ófjármagnað. „Við getum ekki greitt þetta með skattfé, hreinu og beinu skattfé. Það verður að koma eitthvað annað til ef það á að ráðast í þessi verkefni.“ Þá kemur fram Sigþóri í viðtalinu að samgönguverkefni séu langtímaverkefni og að hans mati eigi stjórnmálamenn og Íslendingar almennt erfitt með langtímahugsun. „Við eigum fimmtán ára samgönguáætlun ósamþykkta er held ég það allra lengsta sem Íslendingar geta hugsað fram í tímann. Á meðan að aðrar þjóðir hugsa kannski 50 til 100 ár fram í tímann.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigþór í heild sinni.

Bylgjan / Vísir , 10. nóvember 2024.