Fréttasafn



21. mar. 2023 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Öfug orkuskipti þvert á markmið stjórnvalda

„Rafverktakar okkar hafa verið í öfugum orkuskiptum þvert á markmið stjórnvalda þar sem þeir hafa verið að aftengja rafmagn á fiskimjölsverksmiðjum og tengja aftur olíuna,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali Stefáns Einars Stefánssonar í Dagmálum þar sem meðal annars er rætt um fyrirhuguð orkuskipti sem stjórnvöld vilja koma að fullu til leiðar fyrir árið 2040 eða á næstu 17 árum. Í frétt á mbl.is er einnig vitnað til orða Árna Sigurjónssonar, formanns SI, sem segir að það hafi komið nokkuð á óvart á Iðnþingi þegar ráðherrar töluðu eins og að meira hefði verið gert í átt að orkuskiptum ef skýrar hefði verið kveðið að orði um orkuskortinn sem blasir við nú um þessar mundir. „Það er vont að vera eins og biluð plata nema ef lagið er gott þá er gott að spila það mjög reglulega. En við höfum verið að hamra á þessu síðustu ár líka og því var áhugavert að heyra ráðherrana tala um það, jæja ef menn hefðu talað svona skýrt fyrir nokkrum árum þá væri kannski meira búið að gerast. Ég veit það ekki en að okkar mati er búið að tala um þetta í býsna langan tíma og það er bara komið að þessari stundu að það verður mögulega að taka erfiðar ákvarðanir, en það verður að taka þær.“

Í niðurlagi fréttar mbl.is segir að í október í fyrra hafi Samtök iðnaðarins ásamt verkfræðistofunni Eflu, Landsvirkjun og Samorku staðið að opnun nýs vefjar, orkuskipti.is, sem útskýri á mannamáli hvað þurfi til svo að orkuskipti geti orðið. 

mbl.is, 21. mars 2023.