Fréttasafn



8. okt. 2018 Almennar fréttir

Óhefðbundnar aðgerðir

Í nýjasta tölublaði Þjóðmála er sérstakur greinaflokkur um lærdóminn af hruninu, endurreisnina og árangurinn sem náðst hefur á liðnum áratug. Fordæmalaus staða kallar á óhefðbundnar aðgerðir er yfirskrift greinar Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjória SI, í blaðinu en Sigurður er fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta og fyrrverandi formaður sérfræðingahópsum skuldavanda heimilanna. 

Í grein sinni segir Sigurður meðal annars að alþjóðleg lánshæfismatsfyrirtæki höfðu nokkru fyrir fall íslensku bankanna þriggja gefið þeim hæstu einkunn. „Rykið sem þyrlaðist upp við fall bankanna var lengi að setjast og var staðan ekki að fullu ljós fyrr en árið 2015. Á tímabili var efnahagslegu sjálfstæði landsins teflt í hættu en þegar upp var staðið tókst hins vegar svo vel til við efnahagslega endurreisn Íslands að niðurstöðunni er líkt við afrek. Sá árangur var engin tilviljun. Hann náðist með margvíslegum og stefnumiðuðum aðgerðum yfir nokkur ár, meðal annars með setningu neyðarlaga, með innleiðingu fjármagnshafta í nóvember 2008, með baráttu grasrótarsamtaka og stjórnmálamanna sem á endanum leiddi til þess að dómstólar skáru úr um ágreiningsmál tengd Icesave-reikningunum og vísuðu þar kröfum breskra og hollenskra stjórnvalda á bug, með endurskipulagningu skulda heimila með Leiðréttingunni og með skýrri stefnumörkun, sem leiddi til trúverðugrar áætlunar um losun fjármagnshafta, sem skilaði einstökum árangri í alþjóðlegri fjármálasögu að mati lögmannsins Lee C. Buchheit, ráðgjafa íslenskra stjórnvalda í málinu. Þegar upp var staðið hagnaðist ríkissjóður um sem nemur 9% af vergri landsframleiðslu að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og munar þar miklu um stöðugleikaframlögin.“

Á vef Þjóðmála er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Thjodmal-Haust-2018