Fréttasafn15. apr. 2019 Almennar fréttir Menntun

Okkur vantar fólk með starfsnám

„Tímarnir eru að breytast hratt og okkur vantar fólk með starfsnám, með tækni og iðnmenntun, okkur vantar allskonar fólk, skapandi fólk. Þetta eru í raun þrennskonar týpur af krökkum sem standa núna frammi fyrir því að velja nám,“ segir Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri í menntamálum hjá SI, í samtali við Loga á útvarpsstöðinni K100. 

„Það eru krakkarnir sem eru algjörlega vissir í sinni sök og hafa vitað frá því þau voru 5 ára eða frá því þau fæddust hvað þau vilja og það þarf ekkert að hafa áhyggjur af þeim krökkum. Svo eru hinir krakkarnir sem hafa áhuga á öllu, þarf að beina þeim inn á hinar og þessar brautir. Þá er miklu sniðugra að fara og prófa allskonar verknám og starfsnám og hitt og þetta og geta tekið stúdentinn með. Það er ekkert sem útilokar það. Svo er þriðja týpan sem veit ekki neitt hvað hún vill, hefur ekki áhuga á neinu. Kannski er þetta týpan sem fer inn í tölvurnar og vill bara vera þar í friði. Það er til fullt handa þessum krökkum líka. Ég hvet foreldra til að kynna sér námsframboðið á síðunni nemahvad.is sem Samtök iðnaðarins halda úti. Þar eru upplýsingar um alla starfsnámsskóla og öll fög sem þú getur lært í þessum skólum. Þetta er svo fjölbreytt.“

Frumvarp í smíðum sem víkkar út inntökureglur háskólanna

Þegar Jóhanna Vigdís er spurð hvort krakkar verði bjargarlausir ef þau eru ekki með stúdentspróf og langar síðan til að fara í háskóla segir hún að þar komi til kastanna frumvarp sem þingkonan Áslaug Arna sé með í smíðum þar sem verið er að gera háskólunum kleift að víkka út inntökureglurnar þannig að það þurfi ekki endilega stúdentspróf, að reynsla og ýmislegt annað geti spilað inn í líka. Hún segir að þetta væri mjög gott fyrir ansa marga.

Foreldrar áhrifavaldar

Í viðtalinu segir Jóhanna Vigdís að foreldrar séu áhrifamestu áhrifavaldurinn sem krakkarnir hafa fyrir augunum og fyrirmyndirnar þeirra. Hún segir að foreldrar þurfa að vera opnir og styðja krakkana í þessu. Logi spyr hana hvort þetta sé ekki kolröng aðferð. „Ég man að á þessum árum þá hlustaði ég á alla nema foreldra mína.“ Jóhanna Vigdís segir að það fari eftir týpum af krökkum. „Sumir hlusta alltaf á foreldra sína og aðrir ekki. Foreldrarnir þurfa að vera vakandi fyrir því hvernig samband þeirra við börnin er.“ 

Næg atvinnutækifæri

Þá segir Jóhanna Vigdís að iðngreinarnar séu skapandi greinar og atvinnumöguleikarnir séu gígantískir núna. Hún segir að í könnun sem Samtök iðnaðarins hafi gert meðal félagsmanna sinna komi fram að það séu 73% þeirra sem vantar iðnmenntaða en bara 12% sem vantar háskólamenntaða. „Það eru næg atvinnutækifæri.“

Á vef K100 er hægt að hlusta á viðtalið við Jóhönnu Vigdísi í heild sinni.

Hansa4