Fréttasafn18. nóv. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Landssamband bakarameistara

Ólögleg sala á Sörum á netinu

Í Fréttablaðinu er rætt við Gunnar Sigurðarson, tengiliður Samtaka iðnaðarins hjá Landssambandi bakarameistara, um sölu á Sörum á netinu. Hann bendir á að þetta sé samkvæmt lögum stranglega bannað, enda algjörlega óheimilt að reka handiðnað í atvinnuskyni nema hafa til þess tilskilin réttindi og leyfi. „Það er algjörlega ljóst að í öllum þessum tilvikum er verið að þverbrjóta allt sem snýr að lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, en þau eiga að tryggja neytendavernd og öryggi matvæla enda þessir aðilar ekki með tilskilin starfsleyfi, eins og gildir um alla sem framleiða og selja matvæli hér landi.“ 

Gunnar bendir einnig á að í þessum tilvikum er um að ræða atvinnurekstur og af atvinnurekstri ber auðvitað að greiða skatta og gjöld. „Það er því algjörlega skýrt að þarna er verið að fara á skjön við þær leikreglur sem við höfum sett okkur sem samfélag. Þrátt fyrir að það megi stórefla eftirlit með slíkum brotum, þá veit ég til þess að skattyfirvöld líta þetta grafalvarlegum augum og er ekki hægt að óska neinum að fá bréf eða sektir frá þeim í skóinn.“ 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 18. nóvember 2020.