Fréttasafn24. nóv. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Ólögleg stöðuleyfisgjöld Hafnarfjarðarbæjar

„Nú eru komnir fram tveir úrskurðir á stuttum tíma þar sem framkvæmd Hafnarfjarðarbæjar á innheimtu stöðuleyfisgjalda er ekki talin standast lög. Þetta þýðir að gjöldin eru endurkræf,“ segir Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins, í Fréttablaðinu. Þar segir að úrskurðarnefnd í umhverfis- og auðlindamálum hafi í tvígang úrskurðað innheimtu Hafnarfjarðar á stöðuleyfisgjöldum vegna gáma ólöglega. Annars vegar vegna gáma fyrirtækis á Hringhellu og hins vegar á Steinhellu. Gjaldskrá bæjarins er talin stangast á við mannvirkjalög og byggingarreglugerð og þar af leiðandi sú ákvörðun að innheimta stöðugjöld fyrir gámana ógildanleg.

Ítrekað gert athugasemdir við gjaldtökuna

Í fréttinni kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi ítrekað gert athugasemdir við gjaldtökuna hjá Hafnarfjarðarbæ og fleiri sveitarfélögum sem hafi sambærilega framkvæmd. Megi þar nefna Akraneskaupstað og Fjarðabyggð.

15 milljónir innheimtar vegna stöðuleyfis gáma 

Þá kemur fram í fréttinni að Hafnarfjörður hafi innheimt stöðuleyfisgjöld á hvern gám sem standist ekki lög því eðli málsins samkvæmt sé um að ræða þjónustugjald fyrir leyfi. Í úrskurðum nefndarinnar komi fram að bærinn hafi innheimt um 15 milljónir króna árlega vegna stöðuleyfis gáma. Gjald fyrir 20 feta gám hafi verið tæplega 32 þúsund krónur á ári og fyrir 40 feta gám tæplega 64 þúsund krónur. „Við höfum kallað eftir því að sveitarfélög breyti framkvæmd sinni til samræmis við leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá árinu 2018 en það hefur ekki gengið eftir. Hvert og eitt sveitarfélag virðist hafa sinn háttinn á hvernig og hvort þetta gjald sé innheimt.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 24. nóvember 2020.

Frettabladid-24-11-2020