Fréttasafn



20. nóv. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Omnom með besta mjólkursúkkulaði í heimi

Omnom sem er aðildarfyrirtæki SI hlaut einn mesta heiður í súkkulaðigerð sem völ er á þegar súkkulaðið Milk of Nicaragua vann gullverðlaun á heimsmeistaramótinu í súkkulaðigerð sem besta mjólkursúkkulaði í heimi.

Omnom keppti við stærstu nöfnin í súkkulaðiheiminum sem sérhæfa sig í súkkulaði sem nefnt er úr baun-í-bita. Þá hlaut Omnom einnig fjögur önnur gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og þrenn bronsverðlaun í mismunandi flokkum á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Flórens á Ítalíu síðastliðinn laugardag.

Á vef Omnom er haft eftir Kjartani Gíslasyni, súkkulaðigerðarmanni og öðrum stofnenda Omnom, að það hefði aldrei hvarflað að þeim fyrir fimm árum þegar Omnom var stofnað að fyrirtækið væri að fara fá verðlaun fyrir besta mjólkursúkkulaðið. ,,Það hefur alltaf verið í gæðastefnu okkar að nota bestu mögulegu hráefnin hverju sinni. Oft er það þannig að ef maður er með góð hráefni þá er eftirleikurinn auðveldur. Náin samskipti við kakóbaunabændur gerir okkur kleift að stunda heiðarleg viðskipti og auka sjálfbærni kakóbaunabænda.”

Omnom-sukkuladi