Fréttasafn



14. mar. 2025 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Ónóg nýfjárfesting og viðhald grefur undan getu vegakerfisins

„Ég fjallaði um að vegasamgöngur eru okkur afar mikilvægar sem þjóð en að ónóg nýfjárfesting og viðhald undanfarin ár hefur grafið undan getu kerfisins til að sinna þörfum atvinnulífs og landsmanna. Innviðaskuldin vex, bæði í nýfjárfestingum og viðhaldi. Skuldasöfnunin er dýr og hefur mikil áhrif á samfélagið. Nauðsynlegt er að finna leiðir til að gera hlutina betur,“ segir Ingófur Bender, aðalhagfræðingur SI, í frétt  Morgunblaðsins um fund sem Landsbankinn stóð fyrir í samvinnu við SI um fjármögnun og uppbyggingu innviða. Ingólfur var meðal frummælenda á fundinum þar sem hann fór yfir slæmt ástand vegakerfisins hér á landi og hvaða leiðir eru til útbóta. 

Vegakerfið í versta ástandinu af öllum innviðum landsins

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að samkvæmt niðurstöðum skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga er vegakerfið í versta ástandinu af öllum innviðum landsins þegar kemur að ástandi og viðhaldsskuld. „Þetta er meðal verðmætustu innviða landsins en vegina nýtum við til að flytja fólk, vörur og þjónustu á milli landsvæða. Innviðir á þessu sviði eru lífæðar samfélagsins. Þjóðvegakerfið hefur ekki vaxið í takti við aukin umsvif í hagkerfinu síðustu ár. Vöxtur kerfisins hefur verið mun minni en umferðar um þjóðvegi landsins. Afleiðingin er auknar tafir og meiri slysahætta. Hvort tveggja kostar þjóðfélagið mikið. Tafir draga úr framleiðni og verðmætasköpun hagkerfisins,“ segir Ingólfur. 

Gjaldtaka af ökutækjum fari í uppbyggingu og viðhald vega

Þegar blaðamaður spyr Ingólfur til hvaða aðgerða stjórnvöld þyrftu að grípa segir hann að ýmislegt sé hægt að gera en að staðan sé alvarleg vegna langvarandi fjárskorts. „Það þyrfti að fara með það sem innheimt er af bifreiðum í uppbyggingu og viðhald vega. Með breytingum á gjaldtöku af ökutækjum stefna stjórnvöld á að tekjur af ökutækjum og eldsneyti verði 1,5% af VLF 2025 og komnar í 1,7% af VLF 2027. Við þurfum að nota þetta allt í uppbyggingu og viðhald vegakerfisins“ 

Hægt að lækka kostnað með auknum fyrirsjáanleika í opinberum framkvæmdum

Ingólfur segir jafnframt að það þyrfti einnig að nýta fjármagnið betur sem aflað er til framkvæmda og viðhalds vega. „Með til dæmis auknum fyrirsjáanleika má lækka kostnað. Stjórnendur verktakafyrirtækja sem eru í opinberum framkvæmdum segja að fyrirtæki þeirra gætu boðið nær 11% lægra í opinberar framkvæmdir ef fyrirsjáanleiki væri til staðar. Það þyrfti einnig að forgangsraða í þágu þjóðhagslegra arðsamra verkefna, fara í þær framkvæmdir sem skipta máli, nýta kosti samvinnuverkefna milli einkaaðila og hins opinbera, færa verkefni framar í tíma og lækka kostnað og bæta vetrarþjónustuna.“ 

Morgunblaðið, 14. mars 2025. 

Morgunbladid-14-03-2025