Fréttasafn



12. sep. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Samtök arkitektastofa Starfsumhverfi

Opið bréf norrænna samtaka arkitektastofa til Autodesk

Samtök arkitektastofa á Norðurlöndunum hafa sent opið bréf til forstjóra Autodesk. Aðdragandinn er sá að á undanförnum misserum hefur orðið vart við óánægjuraddir arkitekta, verkfræðinga og annarra aðila sem koma að byggingu mannvirkja á skorti á hugbúnaðarþróun og breyttum viðskiptamódelum hugbúnaðarfyrirtækisins Autodesk. Síðastliðin tvö ár hafa ýmis fyrirtæki, samtök og aðrir hagsmunaaðilar vakið athygli á óánægju sinni með erindum til Autodesk í opnum bréfum eða áskorunum við litlar eða engar undirtektir.

Nordisk praktikermöte (NPM) er árlegur viðburður fulltrúa samtaka arkitektastofa á Norðurlöndunum og fór hann fram hér á landi í júní sl. Á þeim fundi var tekin ákvörðun um að samið skyldi opið bréf til Autodesk í nafni samtaka arkitektastofa frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi og Noregi en norsku samtökin leiddu þá vinnu. 

Opna bréfið var birt Autodesk í dag, mánudaginn 12. september. Samtökin fjögur, Association of Finnish Architects' Offices, Danske Arkitektvirksomheder, Arkitektbedriftene i Norge og Association of Icelandic Architectural Firms, birta bréfið einnig ýmist á heimasíðum sínum eða í gegnum fjölmiðla.  

Halldór Eiríksson, einn eigenda T.ark arkitekta og formaður Samtaka arkitektastofa, SAMARK: „Arkitektar og aðrir hönnuðir hér á landi eru orðnir langþreyttir á því ástandi sem ríkt hefur lengi hvað varðar hugbúnaðarlausnir Autodesk og viðskiptamódel þeirra. Hugbúnaður Autodesk náði fljótlega mikilli festu hér á markaði og í Evrópu og Bandaríkjunum en hugbúnaðarlausnir þeirra hafa lengi staðið í stað og ákveðnir þættir þeirra, hafa lengi verið illa leysir og tímafrekir, og bætur virðast ekki sjónmáli. Við höfum trú á BIM aðferðarfræðinni en viðmótið er enn ansi þungt í vöfum, þrátt fyrir tvo áratugi af notkun svo hagræðingin sem vonast var eftir, skilar sér illa eða ekki til arkitekta og verkkaupa á meðan verðið á vörunni hækkar og hækkar. Það er orðið mikið hagsmunamál um allan heim að tryggja góðar lausnir í þessum efnum og eru arkitektar og hönnuðir orðnir langþreyttir á aðgerðar- og svaraleysi forsvarsmanna Autodesk.“ 

Samtök arkitektastofa hvetja forsvarsfólk arkitektastofa til að skrifa undir áskorun til Autodesk frá þessari vefsíðu: https://www.the-nordic-letter.com/

Hér er hægt að nálgast opna bréfið til Autodesk.

Hér er hægt að nálgast fréttatilkynningu samtaka arkitektastofa á Norðurlöndunum.