Opið fyrir ábendingar til Hönnunarverðlauna Íslands
Opið er fyrir ábendingar til Hönnunarverðlauna Íslands 2024 og hægt er að benda á eigin verk eða annarra til miðnættis 4. september. Markmiðið með ábendingum er að tryggja að afburða verk fari ekki fram hjá dómnefnd og því hvetjum við eigendur góðra verka til þess að tilnefna eigin verk. Hönnunarverðlaun Íslands fara fram 7. nóvember í Grósku.
Hönnunarverðlaun Íslands verða veitt í ellefta sinn í ár og eru veitt í þremur flokkum: Vara // Staður // Verk.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2024 sem eru hvoru tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verða veitt Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands og viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun 2024.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtök iðnaðarins og Grósku.