Fréttasafn20. maí 2021 Almennar fréttir Mannvirki Nýsköpun

Opin málstofa um nýsköpun í mannvirkjagerð

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtök iðnaðarins, Byggingavettvangurinn og Verkís bjóða til opinnar málstofu föstudaginn 28. maí kl. 9.00-11.30 þar sem nýtt skipulag á rannsóknar- og nýsköpunarumhverfi byggingariðnaðarins verður kynnt auk þess sem fulltrúar úr allri virðiskeðju mannvirkjagerðar segja reynslusögur um nýsköpun innan byggingariðnaðarins: Hvaða nýsköpun er þar að finna? Hvað hefur gengið vel? Hvað má betur fara?

Í auglýsingu fyrir viðburðinn kemur fram að nýsköpun eigi sér stað á öllum stigum mannvirkjageirans, hvort sem það er við þróun byggingarefna, hönnun mannvirkja, fjármögnun þeirra, framkvæmdir eða rekstur, á stjórnsýslustigi eða við rannsóknir og nám.

Hægt verður að fylgjast með málstofunni á Facebook. Viðburðinum verður streymt á Vísi.

Dagskrá

  • Sandra Hlíf Ocares, verkefnastjóri Byggingavettvangsins: Vinna við nýtt skipulag á rannsóknum og nýsköpun í byggingariðnaði
  • Steypustöðin: 3D prentun á steypu.
  • Sigurður Guðjónsson, forstöðumaður byggingardeildar: Íslenskt timbur í framleiðslu á límtrésbitum.
  • Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverk: Nýsköpun í byggingariðnaði með áherslu á umhverfismál.
  • Davíð Friðgeirsson, BIM ráðgjafi hjá Verkís: Tæknibylting í hönnun mannvirkja.
  • Helga Guðrún Vilmundardóttir, arkitekt hjá Stáss arkitektum: Nýsköpun í hönnun.
  • Íris Þórarinsdóttir, umhverfisstjóri þróunarsviðs hjá Reitum: Nýsköpun í uppbyggingu atvinnusvæðis.hjá Reitum: Nýsköpun í uppbyggingu atvinnusvæðis.
  • Framkvæmdasýsla ríkisins: Reynslusaga um nýsköpun.
  • Þormóður Sveinsson, skipulagsfulltrúi Hafnarfjarðar: Reynsla sveitarfélags við nýsköpun í framkvæmdum og umsýslu mannvirkjagerðar.
  • Arion banki: Nýsköpun og fjármögnun.

Fundarstjóri er Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins.

Viðburðurinn verður haldinn í stóra fyrirlestrasalnum í Grósku hugmyndahúsi, Bjargargötu 1, Vatnsmýrinni. Vegna fjöldatakmarkanna getum við tekið á móti um 40 skráðum þátttakendum. Skráning á viðburðinn fer fram hér.

Einnig verður hægt að horfa á streymi frá viðburðinum hér á Facebook-síðu hans. 

Viðburðurinn er hluti af Nýsköpunarvikunni, nýrri hátíð í Reykjavík sem fer fram dagana 26. maí -2. júní 2021. Frumkvöðlum og fyrirtækjum gefst tækifæri á að kynna þá skapandi starfsemi sem á sér stað á degi hverjum, opna dyrnar fyrir gestum og gangandi og vekja athygli á þeim framúrstefnulegu lausnum sem hafa sprottið upp úr íslensku hugviti. 

Nánar á www.nyskopunarvikan.is

Nyskopun-i-mannvirkjagerd.Coverphoto