Fréttasafn



19. apr. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Opinber gögn gefa ekki rétta mynd af fjölda íbúða í byggingu

Talsverður munur er á tölum Samtaka iðnaðarins annars vegar og Þjóðskrár og Hagstofu Íslands hins vegar um fjölda íbúða í byggingu. Íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru samkvæmt tölum Þjóðskrár í byrjun mars 2.327 talsins samanborið við 3.523 í talningu SI. Munurinn er 1.196 íbúðir eða 51%. Um síðustu áramót voru 2.347 íbúðir í byggingu samkvæmt gögnum Hagstofunnar samanborið við 4.127 í talningu SI í september í fyrra. Munurinn er 1.780 íbúðir eða 76%. Þetta kemur fram í greiningu SI um íbúðatalningu. 

Í greiningunni kemur fram að það hafi lengi verið baráttumál Samtaka iðnaðarins að tryggja sem best gæði gagna um uppbyggingu íbúða hér á landi. Góðar upplýsingar séu grundvöllur réttrar ákvarðanatöku á þessum vettvangi. Í ljósi þess að opinberar upplýsingar um fjölda íbúða í byggingu séu ekki nægjanlega áreiðanlegar sjái Samtök iðnaðarins sig tilneydd til að telja íbúðir í byggingu. Framtíðarsýn SI hvað þetta varðar sé hins vegar að gögn opinberra aðila um íbúðir í byggingu verði nægjanlega áreiðanleg þannig að samtökin þurfi ekki að vera í talningu sjálf. Þá kemur fram að það sé vilji SI að öll samþykkt byggingaráform séu skráð í byggingargátt og að framvinda verka séu skráð þar jöfnum höndum. Þannig megi tryggja að á hverjum tíma sé hægt að afla upplýsinga um íbúðir í byggingu eftir t.a.m. staðsetningu, húsgerð og stærð.

Ólíkar skilgreiningar og tafir á skráningu byggingarfulltrúa

Þá segir í greiningunni að hluta til skýrist munurinn í þessum talningum af því að talið er á grundvelli ólíkra skilgreininga. Það skýrir þó ekki nema lítinn hluta af muninum. Tölur Þjóðskrár og Hagstofu Íslands byrja fyrr í ferlinu þ.e. á byggingarstigi 1 en ekki 2 líkt og talning Samtaka iðnaðarins. Þær tölur ættu því að vera hærri en tölur SI af þeim sökum. Talning Þjóðskrár og Hagstofunnar endar síðan þegar íbúð fer á byggingarstig 7 en talning SI þegar flutt er inn. Íbúð gæti af þessum sökum dottið út úr talningu SI á einhverjum af síðustu byggingarstigum, þ.e. frá 5-7 samkvæmt ÍST-51.

Jafnframt kemur fram í greiningunni að þegar horft er í talningar frá 2010 sjáist að mun meiri hagsveifla er í talningu SI. Ástæða þess að Samtök iðnaðarins fóru í talningar íbúða á sínum tíma og eru enn í slíkum talningum er að miklar tafir eru á skráningu byggingarfulltrúa á íbúðum í byggingu sem gerir það að verkum að ekki er hægt að byggja mat á íbúðum í byggingu á þeim gögnum. Tölur sem byggja á skráningu byggingarfulltrúa, líkt og Þjóðskrá og Hagstofan gera, gefa ekki rétta mynd af íbúðum í byggingu á hverjum tíma. 

 

Ibudir-a-hbsv.-2

Hér er hægt að nálgast greiningu SI.