Fréttasafn12. mar. 2019 Almennar fréttir

Opinbera kerfið getur aldrei leitt launaþróun

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, var gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gær þar sem hún ræddi meðal annars um stöðuna í kjaraviðræðunum milli verkalýðsfélaganna og atvinnulífsins. Þar segir Guðrún að ákvörðun kjararáðs á sínum tíma að hækka laun opinberra starfsmanna á einu bretti um 40 prósent og afturvirkar hækkanir séu á vissan hátt kveikjan að því í hvaða stöðu við erum í dag. „Hið opinbera kerfi, það getur aldrei leitt launaþróun á Íslandi. Verðmætin verða til úti í atvinnulífinu, hjá fyrirtækjunum í landinu og hjá útflutningsgreinunum. Opinberi geirinn, hann verður síðan að fylgja í kjölfarið. Opinberi geirinn hefur verið að leiða þetta og það er glórulaust að mínu mati.“

Þegar Guðrún var spurð hvort hún væri bjartsýn á að fyrirtækin standi ósködduð eftir sagðist hún alltaf vera bjartsýn. „Ég veit að við munum semja. Á einhverjum tímapunkti munu aðilar ná saman um einhvern samnefnara og deilan er enn í þeim farvegi að það er ekki komið að þeim punkti. Ég held að allir sem standi í atvinnurekstri hafi brugðið mjög við kröfugerðir verkalýðsfélaganna þegar þær komu fram fyrir jól. Þær voru mun hærri og í kannski öðrum takti heldur en atvinnulífið hafði átt von á. Þannig að við erum að sjá fram á samdrátt í hagkerfinu í fyrsta sinn í sjö ár. Maður hefði kannski skilið svona bólgna kröfugerð ef við værum á leiðinni upp í hagsveiflunni en ekki á leiðinni niður. Það er það sem veldur manni áhyggjum.“

Hringbraut, 11. febrúar 2019.