Fréttasafn



5. sep. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Opnað fyrir tilnefningar fyrir Hönnunarverðlaun Íslands

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar fyrir Hönnunarverðlaun Íslands 2017. Um er að ræða tvo flokka sem er annars vegar hönnun ársins og hins vegar besta fjárfesting í hönnun ársins. Verðlaunahafi hlýtur peningaverðlaun að upphæð 1 milljón króna. Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins. 

Í dómnefnd eru Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands, Högni Valur Högnason, listrænn stjórnandi á hönnunar- og markaðsstofunni h:n markaðssamskipti, Katrín María Káradóttir, fagstjóri fatahönnunarbrautar Listaháskóla Íslands, Sigríður Heimisdóttir, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, Sigrún Birgisdóttir, arkitekt og deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands og Tinna Gunnarsdóttir, sjálfstætt starfandi hönnuður og prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands.

Hér er hægt er að senda inn tilnefningar til miðnættis laugardaginn 30. september. 

Á myndinni eru verðlaunahafar síðasta árs.