Fréttasafn



5. sep. 2017 Almennar fréttir

Óraunhæft að hið opinbera geti fjármagnað allt sem þarf

„Sterkir innviðir eru nauðsynlegir til þess að atvinnulífið geti blómstrað um land allt. Þá er ég að vísa í samgöngur, fjarskipti, gagnatengingar og raforku sem þarf að vera trygg alls staðar, sem er ekki raunin í dag,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali Viðskiptablaðsins. „Almennt erum við mjög hlynnt því að einkaaðilar komi að fjármögnun einstakra verkefna og höfum bent á svokallaðar PPP lausnir í þeim efnum, sem stendur fyrir „public private partnership“ á ensku. Það þýðir að einkaaðilar koma að slíkum verkefnum enda er í mínum huga algerlega óraunhæft að hið opinbera geti fjármagnað allt sem þarf að gera á ásættanlegum tíma. Við höfum líka séð áhuga innlendra sem og erlendra fjárfesta á því að fjármagna framkvæmdir af þessum toga. Stjórnvöld þurfa í samstarfi við atvinnulífið að vera miklu duglegri að gera áætlanir lengra inn í tímann og taka meira tillit til hagsveiflunnar. Það er áhugavert að þó að það sé þensla á mörgum sviðum, þá eru undantekningar á því. Nýlegar fréttir af útboði á gatnaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu eru ágætt dæmi, þar sem tilboð voru langt undir kostnaðar­áætlun, sem segir okkur að hagkvæmt er að ráðast í frekari framkvæmdir. Fjárfesting í dag er hagvöxtur á morgun. Það hefur verið of lítið fjárfest í innviðum á síðustu árum sem mun koma niður á okkur í framtíðinni ef við bætum ekki úr. Við verðum að ráðast í þessa uppbyggingu til að styðja við hagvöxt framtíðarinnar.“

Viðskiptablaðið, 31. ágúst 2017.