Fréttasafn



29. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Innviðir Mannvirki Menntun Starfsumhverfi

Orð ársins er skortur segir aðalhagfræðingur SI

Skortur á íbúðum, raforkuinnviðum og menntuðu vinnuafli í takt við þarfir atvinnulífsins hefur einkennt árið 2023. Vandinn hefur komið fram í minni vaxtargetu hagkerfisins, efnahagslegu ójafnvægi, verðbólgu, háum vöxtum og minni kaupmætti launa. Því má segja að skortur sé orð ársins 2023. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein á Vísi

Hann segir að vandinn sé heimatilbúinn og orsökina megi rekja til þess að framboð hefur ekki fylgt vaxandi þörf á sviði húsnæðis-, orku- og menntamála. Mikilvægt sé að stjórnvöld og samfélagið allt nýti árið 2024 til að leysa úr þessum vandamálum og tryggja þannig grundvöll stöðugleika og áframhaldandi verðmætasköpunar heimilum og fyrirtækjum til heilla.

Ingólfur segir að stjórnvöld hafi tækifæri til að leysa farsællega úr þessum málum þannig að fjölbreyttum þörfum heimila og fyrirtækja landsins sé mætt og tækifærin til vaxtar og aukinnar velsældar nýtt hér á landi. Til að leysa þennan vanda þurfi samstillt átak þeirra sem að hagstjórninni koma. Ef vel takist til verður uppskeran aukinn stöðugleiki – lægri verðbólga og vextir – sem sé grundvöllur framleiðnivaxtar og aukins kaupmáttar. Í niðurlagi greinarinnar segir Ingólfur: Gerum stöðugleika að orði ársins 2024.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 29. desember 2023.