Orkufyrirtæki hafa hugsanlega farið of geyst í verðhækkanir
„Þetta eru jákvæðar fréttir og endurspegla betri vatnsbúskap og þar með eru horfur á meiri framleiðslu raforku en útlit var fyrir í haust. Horfur til skemmri tíma litið hafa þannig batnað en því miður hafa horfur til lengri tíma litið versnað með áframhaldandi töfum á Hvammsvirkjun með nýlegum dómi Héraðsdóms,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í samtali við Viðskiptablaðið um að heildsöluverð á raforku lækkaði verulega í mánaðarlegu söluferli raforkumarkaðsins Vonarskarðs á svokölluðum mánaðarblokkum. Í Viðskiptablaðinu kemur fram að lækkunin nemi að meðaltali 11,6% milli mánaða en 13,3% samanborið við hápunkt verðþróunar í nóvember. Að auki urðu í fyrsta sinn síðan í haust viðskipti með blokkir frá júní til og með september á þessu ári á 13,9% lægri verðum en lægstu sölutilboð síðasta söluferlis laust fyrir jól.
Algengt að heyra um 20-30% hækkun raforkuverðs
Sigurður segir í samtali við Viðskiptablaðið að vísitala raforku sem Hagstofan mæli hafi hækkað um 13,2% á tólf mánaða tímabili miðað við nóvember sl. „Við höfum heyrt um enn meiri hækkanir frá fyrirtækjum undanfarna mánuði en algengt er að heyra um 20-30% hækkun raforkuverðs. Verð mánaðarblokka til afhendingar í byrjun þessa árs hækkaði um rúmlega 30% í útboðum Vonarskarðs á síðasta ári en hefur nú lækkað aftur. Það er virkilega ánægjulegt að orkufyrirtækin bjóði nú lægri verð en í nóvember eins og við sjáum í útboðum Vonarskarðs. Hafa þarf í huga að lítið magn er að baki viðskiptunum. Það blasir þó við að almenningur og fyrirtæki njóti ábata af bættri stöðu eftir miklar hækkanir á raforkuverði undanfarin misseri þar sem orkufyrirtæki hafa hugsanlega farið of geyst í verðhækkanir.“
Viðskiptablaðið, 28. janúar 2025.