Fréttasafn29. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Orkuöflun hefur ekki haldið í við þróun samfélagsins

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, var meðal viðmælenda í Spursmáli Stefáns Einars Stefánssonar á mbl.is í dag. Þar ræddi Sigríður ásamt Björgu Evu Erlendsdóttur frá Landvernd um allar helstu hliðar orkumála hér á landi, orkuskort og hægagang í meðferð virkjunarkosta. 

Sigríður segir meðal annars að miðað við breytingarnar sem hafi átt sér stað á íslensku samfélagi á síðastliðnum 15 til 20 árum með hagvexti, gríðarlegri fólksfjölgun, stöðuga fólksfjölgun þessi misserin, þá hafi orkuöflun ekki haldið í við þróun samfélagsins. Það sé það sem átt sé við með kyrrstöðunni. „Við sáum að rammaáætlun fór ekki í gegnum þingið í 7 eða 10 ár, sú kyrrstaða var vissulega rofin en við erum samt að sjá tafir í öllu leyfisveitingaferli. Og í því ferli sem er þegar orðið mjög langt er að tefjast enn frekar, meðal annars er Hvammsvirkjun gott dæmi um það. Það komu góð tíðindi um daginn um Hvammsvirkjun að hún væri að komast á kortið sem er mjög jákvætt. En ég ítreka það að Landvernd hefur staðið í vegi fyrir uppbyggingu. Við erum algjörlega sammála um það að auðvitað eigum við að nýta raforkuna eins og best verður á kosið og veikt flutningskerfi er ekki að hjálpa okkur í því samhengi.“ 

Á vef mbl.is  er hægt að horfa á Spursmál.

mbl.is, 29. desember 2023.