Fréttasafn11. nóv. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Ósammála að meistarakerfið sé samkeppnishindrun

„Það er margt í þessari skýrslu og tillögum sem við getum tekið undir og passar vel við málflutning okkar síðustu misseri en við erum algerlega ósammála OECD um að meistarakerfið sé samkeppnishindrun,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, á mbl.is um nýja skýrslu OECD um samkeppnismat stofnunarinnar á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði, sem gerð var að beiðni stjórnvalda. Sigurður nefnir í frétt mbl.is að margt sem komið hefði verið inn á í skýrslunni; gjaldtaka sveitarfélaga, skipulagsmál, útgáfa leyfa, tímafrestir og fleira, passaði vel við málflutning Samtaka iðnaðarins. „Auðvitað vonum við að sem mest af því verði hrint í framkvæmd þannig að það verði enn frekari umbætur á þessu sviði. Það segir sig sjálft að gjaldtaka sveitarfélaga til dæmis hefur áhrif. Innviðagjöld geta numið milljónum á hverja íbúð og auðvitað þýðir það að verðið er hærra.“

Annað eins og varðandi meistarakerfið segir Sigurður á mbl.is að SI geti ekki tekið undir. „Við tókum höndum saman með menntamálaráðherra og sveitarfélögunum að hvetja til aukinnar aðsóknar í iðnnám og það hefur skilað árangri. Aðsókn hefur aukist ár frá ári. Með fleiri iðnmenntuðum ætti samkeppni að aukast en ekki minnka eins og OECD ýjar að.“ 

mbl.is, 11. nóvember 2020.