Fréttasafn9. ágú. 2022 Almennar fréttir

Óskað eftir ábendingum til Hönnunarverðlauna Íslands

Opnað hefur verið fyrir ábendingar til Hönnunarverðlauna Íslands 2022. Hér er hægt er að setja inn ábendingar til miðnættis mánudagsins 29. ágúst. Hægt er að benda á verk í tveimur flokkum, Hönnunarverðlaun Íslands 2022 og Besta fjárfesting ársins 2022 í hönnun. Vinningshafar geta komið úr öllum greinum hönnunar.

Á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs segir að Hönnunarverðlaun Íslands varpi ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar og arkitektúrs og beini sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða sé veitt mikilvæg viðurkenning

Hönnunarverðlaun Íslands eru heiðurs- og peningaverðlaun, veitt hönnuði, hönnunarteymi eða -stofu fyrir einstakan hlut, verkefni eða safn verka sem þykja skara fram úr. Hönnuðir þurfa að vera félagar í einu af aðildarfélögum Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs eða fagmenn á sínu sviði til að hljóta verðlaunin. Hönnunarverðlaun Íslands eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur.

Besta fjárfesting í hönnun er viðurkenning sem var veitt var í fyrsta sinn 2015 og veitt er fyrirtæki sem hefur með eftirtektarverðum hætti fjárfest í hönnun og arkitektúr eða innleitt aðferðir hönnunar í grunnstarfsemi sína. Fyrirtæki sem eiga þess kost að hljóta viðurkenninguna hafa hönnun og arkitektúr að leiðarljósi í starfsemi sinni til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.

30x30cm-HVI_W8A9567_1660059837579Hönnunarverðlaun Íslands 2021 hlaut plötuumslag Hjaltalín ∞. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, þáverandi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti viðurkenninguna til Sigurðar Oddssonar, hönnuðar, og Matthíasar Rúnars Sigurðssonar, myndhöggvara. Gabríel Benedikt Bachmann, þrívíddarhönnuður, vann einnig að gerð plötuumslagsins. Með þeim á myndinni er einnig Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra 

CCP hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2021. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, afhenti viðurkenninguna á Hönnunarverðlaunum Íslands sem fram fór í Grósku. Á myndinni eru Bergur Finnbogason, listrænn stjórnandi CCP, og Sæmundur Hermannsson, vörumerkjastjóri CCP, með viðurkenninguna ásamt Lilju Alfreðsdóttur, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra SI, og Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, þáverandi iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.