Fréttasafn15. maí 2023 Almennar fréttir Menntun

Óskað eftir tilnefningum fyrir Íslensku menntaverðlaunin

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar Íslensku menntaverðlaunanna þar sem veittar eru viðurkenningar fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur, framúrskarandi kennara, framúrskarandi þróunarverkefni eða framúrskarandi iðn- eða verkmenntun. Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Tilnefningar er hægt að senda fram til 1. júní. 

Verðlaunin sem eru veitt árlega eru í fimm flokkum:

A. Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

B. Framúrskarandi kennari. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.

C. Framúrskarandi þróunarverkefni. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hafa ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.

D. Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun. Ein verðlaun veitt kennara, námsefnishöfundi, skóla- eða menntastofnun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar.

E. Hvatningarverðalun til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Viðurkenningarráð velur þrjár til fimm tilnefningar í hverjum flokki til kynningar á alþjóðadegi kennara 5. október. Tillögur um tilnefningar skal senda ráðinu með því að nýta þessi skráningarform:

Einnig má senda tillögur um tilnefningarnar í hefðbundnum pósti merkt Íslensku menntaverðlaunin hjá / Ingvar Sigurgeirsson, Sóltún 16, 105 Reykjavík.

Þau sem standa að Íslensku menntaverðlaununum eru eftirtalin: Embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneyti, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Mennta­vísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Samtök iðnaðarins og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.

Frá afhendingu á viðurkenningu fyrir framúrskarandi framlag til iðn- og verkmenntunar á Bessastöðum á síðasta ári þegar átaksverkefnið #kvennastarf hlaut viðurkenninguna en átakinu er ætlað er að stuðla að auknu jafnrétti til náms.