Fréttasafn



20. des. 2021 Almennar fréttir Menntun

Óskað eftir tilnefningum fyrir menntaverðlaun

Skilafrestur fyrir tilnefningar vegna menntaverðlauna atvinnulífsins rennur út á morgun þriðjudaginn 21. desember. Verðlaunin verða afhent á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fer í Hörpu miðvikudaginn 2. febrúar. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Verðlaun eru veitt í tveimur flokkum; menntafyrirtæki og menntasproti ársins 2022. Tilnefningar og fylgiskjöl sendist rafrænt í tölvupósti á verdlaun@sa.is.

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:

• að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins

• að sem flest starfsfólk taki virkan þátt

• að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum

• að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

• að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu-innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja

• samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu-innan sem utan fyrirtækja

Fyrirtæki geta tilnefnt sig sjálf en skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta verkefni. Greinargerð á að vera að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.