Fréttasafn18. okt. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Óskiljanleg ákvörðun að ráðast í gullhúðun á danska fyrirmynd

Það er óskiljanleg ákvörðun að ráðast í gullhúðun á dönsku fyrirmyndinni sem svo litlu virðist hafa skilað sérstaklega þegar gullhúðunin mun hafa enn frekari lögfræðilega óvissu í för með sér. Þetta segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í grein í ViðskiptaMogganum sem ber yfirskriftina Gullhúðað ákvæði sem skilar litlu. Í greininni segir að í vetur muni Alþingi í annað sinn taka fyrir frumvarp innviðaráðherra um breytingu á skipulagslögum til að innleiða hið svokallað Carlsberg-ákvæði. Frumvarp innviðaráðherra kveði á um að sveitarfélögum sé heimilt að gera kröfu um það við gerð deiliskipulags fyrir ný íbúðasvæði að allt að 25% af heildarfermetrafjölda íbúða innan skipulagssvæðis verði fyrir íbúðir sem falli undir lög um almennar íbúðir og íbúðir sem falli undir VI. kafla A (hlutdeildarlán) og VIII. kafla laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Markmið frumvarpsins sé að aðstoða sveitarfélög og hvetja þau til að skipuleggja íbúðabyggð þannig að gert sé ráð fyrir fjölbreyttri byggð innan svæðis. 

Stjórnvöld innleiði regluverk sem flýti uppbyggingu

Í greininni segir Jóhanna Klara að mikið hafi verið rætt um stefnu stjórnvalda og ákveðinna sveitarfélaga við uppbyggingu á niðurgreiddu eða félagslegu húsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem falli undir ákveðin tekjumörk. Umræðan sé nauðsynleg enda hafi hlutfall húsnæðiskostnaðar í útgjöldum hækkað um helming frá síðustu aldamótum. Ástæðan sé fyrst og fremst sú að byggt hafi verið of lítið og lausnin sé því að byggja fleiri íbúðir til að koma jafnvægi á markaðinn. Það sé því ábyrgðarhlutverk stjórnvalda að leggja áherslu á að innleiða regluverk sem flýti fyrir uppbyggingu og útiloki regluverk sem skapi óvissu og tafir.

Aðeins 6% byggt á grundvelli ákvæðisins frá upphafi

Þá segir í greininni að frumvarpið eigi rætur sínar að rekja til danskrar fyrirmyndar sem hafi átt að stuðla að frekari uppbyggingu á almennum íbúðum þar í landi en sú hafi ekki verið raunin. Hið danska ákvæði hafi samkvæmt greiningu dönsku skipulagsstofnunarinnar frá því í júní 2021 einungis verið beitt hjá 8 af 98 sveitarfélögum í Danmörku á tímabilinu 3. mars 2015 til 1. apríl 2020. Á umræddum tíma hafi verið byggðar 10.400 íbúðir á reitum sem þessi 8 sveitarfélög hafi beitt ákvæðinu á en aðeins 6% eða 635 svokallaðar almene boliger hafi verið byggðar á grundvelli ákvæðisins frá upphafi. Það sé því óhætt að fullyrða að ákvæðið hafi ekki skilað þeim árangri sem því hafi verið ætlað. Um tilraunalagasetningu hafi verið að ræða og kveði á um endurskoðun ákvæðisins á árunum 2024-2025. Jóhanna Klara segir að með hliðsjón af árangri ákvæðisins væri réttast að bíða með innleiðingu hér á landi þar til sú endurskoðun hafi átt sér stað.

Skerðing eignaréttar lóðareigenda og takmörkun á samningsfrelsi

Jóhanna Klara segir í greininni að til standi að gullhúða þetta danska ákvæði við innleiðingu hér á landi. Hið danska ákvæði taki eingöngu til almennra íbúða þar í landi en hér ætlum við ekki aðeins að beita því fyrir uppbyggingu á almennum íbúðum heldur einnig íbúðum sem uppfylli skilyrði um hlutdeildarlán sem og leiguíbúða sem falli undir skilyrði VIII. kafla um húsnæðismál. Hún segir að útfærsla og takmörk kvaðanna sé mjög óljós, t.d. þegar komi að skerðingu eignarréttar lóðareigenda og takmörkun á samningsfrelsi uppbyggingaraðila.

Klára samninga við fleiri sveitarfélög en Reykjavíkurborg

Í niðurlagi greinarinnar spyr Jóhanna Klara hver tilgangurinn sé. Frá því að almenna íbúðakerfinu hafi verið komið á fót hafi stofnframlög verið veitt vegna bygginga eða kaupa á samtals 2.981 almennum íbúðum samkvæmt heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hún segir að það sé nokkuð ljóst að uppbygging almennra íbúða eigi sér stað í þeim sveitarfélögum þar sem pólitískur vilji er fyrir hendi líkt og í Reykjavíkurborg. Ef það sé markmið stjórnvalda að ná fram frekari þátttöku sveitarfélaga í uppbyggingu á almennum íbúðum væri réttara að klára einfaldlega samninga við fleiri sveitarfélög sem byggi á rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða. Reykjavíkurborg hafi ein skrifað undir slíkan samning.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

ViðskiptaMogginn, 18. október 2023.

VidskiptaMoggi-18-10-2023