Fréttasafn



11. nóv. 2020 Almennar fréttir

Óskiljanleg ummæli OECD um afnám löggildingar

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í hádegisfréttum Bylgjunnar um skýrslu OECD og ummæli um afnám löggildingar í tiltekjum starfsgreinum sem hann er ósammála og segir vera óskiljanleg. „Við erum bara svolítið hissa á þessum sjónarmiðum í skýrslunni og skiljum þau ekki alveg. Vegna þess að það sem mestu skiptir eru almannahagsmuni sem lúta að gæðum og fagmennsku.“

Sigurður segir í fréttinni að neytendur eiga að geta gengið að því vísu að að þjónusta uppfylli gæðakröfur. Aðsókn í iðnnám hafi aukist og að þar með fjölgi þeim sem starfa á sviðinu. Hann segir skoðun á einhverjum þáttum kannski tímabæra. „En mér finnst ekki rétt að smætta þetta mál niður í hattasaum eða söðlasmíði. Þetta er miklu stærra og brýnna mál og mikilvægara heldur en svo.“

Í fréttinni kemur fram að OECD leggi til að löggilding bakara og ljósmyndara verði afnumin og að dregið verði úr reglubyrði fyrir smiði, rafvirkja, pípara, hönnuði, fasteignasala, arkitekta og verkfræðinga. „Þegar við erum að horfa á byggingariðnaðinn sé ég ekki og við hjá Samtökum iðnaðarins málefnaleg rök fyrir að afnema lögverndun þar. Ég sé ekki alveg hvernig við værum bættari með að láta ófaglært fólk vinna störf sem fagmenntað fólk gerir í dag, án þess að það bitni á gæðum eða þjónustu.“

Vísir, 11. nóvember 2020.