Óskilvirkni og seinagangur hefur áhrif á lífskjör
Í leiðara helgarútgáfu Morgunblaðsins er vitnað til greinar Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, sem hann skrifaði í ViðskiptaMoggann um tafir á framkvæmdum vegna skipulags og leyfisveitinga. Í leiðaranum segir að Sigurður bendi á að of fáar íbúðir hafi verið reistar á undanförnum árum og það hafi leitt til mikilla verðhækkana á húsnæði. Þessar verðhækkanir séu langt umfram launahækkanir og ógni ekki einungis efnahagslegum stöðugleika, heldur félagslegum stöðugleika. Kaupmáttur hafi aukist verulega undanfarin misseri, en sívaxandi húsnæðiskostnaður samfara lítilli uppbyggingu íbúða skekki myndina og telur Sigurður að tafir í skipulagi og hjá byggingafulltrúum sveitarfélaga og kröfur af ýmsu tagi valdi samfélaginu kostnaði, sem hugsanlega hlaupi á milljörðum króna á ári þegar allt sé talið.
Í leiðaranum eru nefnd dæmi um seinagang þegar bíða hefði þurft í 11 mánuði eftir því að Reykjavíkurborg afgreiddi eignaskiptalýsingu á Bríetartúni 9-11 og að ekki sé langt síðan umboðsmaður borgarbúa í Reykjavík fjallaði um seinaganginn hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur þar sem kom fram að hann hefði þurft að bíða að meðaltali í um 80 daga eftir svörum frá sviðinu, en sambærilegur svartími hjá öðrum sviðum hefði verið um 13 dagar.
Þá segir í leiðaranum að borgin sjálf sé ekki undanþegin seinaganginum og vitnað er til skrifa Sigurður að þegar Reykjavíkurborg hafi staðið fyrir breytingunni á húsnæðinu á Hlemmi til að búa til aðstöðu fyrir veitingamenn hafi það sama verið uppi á teningnum. „Tafir á veitingu byggingaleyfis, m.a. vegna skipulagsmála, ásamt öðrum ástæðum, leiddu til þess að þetta verkefni tafðist um nærri ár, upphaflega stóð til að hefja starfsemi haustið 2016 en það tókst ekki fyrr en í ágúst 2017,“ skrifar Sigurður. „Með öðrum orðum, þá reyndu borgaryfirvöld á eigin skinni hversu óskilvirkt kerfið er.“
Í niðurlagi leiðarans segir að kerfið eigi að þjóna almenningi, en ekki almenningur kerfinu. Þá keyri um þverbak þegar óskilvirkni og seinagangur kerfisins leiði til þess að húsnæði verði dýrara en ella og hafi áhrif á lífskjör.
Morgunblaðið, 19. maí 2018.
Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.