Fréttasafn



26. apr. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Óskilvirkt kerfi á húsnæðismarkaði

Margt bendir til þess að stjórnsýslan hér á landi sé flóknari en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Fjögur ráðuneyti, 74 sveitarfélög og nokkrar stofnanir setja sitt mark á málaflokkinn. Kerfið er óskilvirkt og vinnubrögð ekki samræmd. Því þarf að breyta og forsætisráðherra í ríkisstjórn sem leggur áherslu á löngu tímabæra innviðauppbyggingu hlýtur að byrja á því að færa húsnæðis- og skipulagsmál í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið svo úr verði öflugt innviðaráðuneyti. Þetta kemur fram í grein Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, sem birt er í Fréttablaðinu í dag. 

Flókið regluverk hindrar nýsköpun í upppbyggingu hagkvæmra íbúða

Í greininni segir Sigurður jafnframt að regluverkið sé allt of flókið og hindrar nýsköpun sem sannarlega sé þörf á nú þegar byggja þarf hagkvæmar íbúðir. Með reglulegu millibili á fullveldistímanum hafi íslenskur iðnaður leyst húsnæðisvanda landsmanna og svo verði einnig nú en þá þurfi að leyfa hugviti landsmanna að njóta sín án þess að regluverkið hamli um of.
Í niðurlagi greinar sinnar segir Sigurður að það sé til mikils að vinna og ekki eftir neinu að bíða með að koma húsnæðismarkaðnum í lag, þannig sé ekki eingöngu stutt við efnahagslegan stöðugleika heldur sé styrkari stoðum skotið undir félagslegan stöðugleika.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.