Fréttasafn



17. okt. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Óskilvirkt kerfi leiðir til aukins kostnaðar við íbúðabyggingar

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um íbúðamarkaðinn og meðal annars rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins sem var með erindi á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga og SI í gær. Í umfjöllun Baldurs Arnarsonar, blaðamanns, er haft eftir Ingólfi að margt bendi til þess að flækjustig við mannvirkjagerð sé hærra hér á landi en í nágrannalöndum. Til dæmis sé Ísland í 64. sæti af 190 löndum þegar kemur að því að reisa mannvirki. Með þetta í huga sé brýnt að einfalda regluverk til muna og gera það sveigjanlegra til að draga úr töfum og kostnaði við byggingu íbúðarhúsnæðis. Núverandi fyrirkomulag í kringum bygginga- og mannvirkjagerð sé óskilvirkt. Boðleiðir séu langar og ákvarðanataka tímafrekari en annars væri. Það leiði aftur til aukins kostnaðar við byggingu húsnæðis. Máli sínu til stuðnings bendi Ingólfur á að umfang byggingareftirlits hér á landi sé hið sama óháð því hvernig mannvirki er verið að byggja. Þannig geri regluverkið ráð fyrir sama ferli hvort sem verið sé að byggja bílskúr eða hátæknisjúkrahús, svo dæmi sé tekið. 

Aukning íbúðabygginga fyrst og fremst á þremur reitum

Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að í máli Ingólfs hafi komið fram að samkvæmt nýrri talningu SI séu nú 4.845 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu í smíðum. Það eru 752 eða 18% fleiri íbúðir en voru í byggingu í mars sl. Þar af eru 4.466 íbúðir, eða 92% allra íbúða í byggingu, í fjölbýli. Fjölgun íbúða í byggingu er hlutfallslega mest í Reykjavík en þar eru nú 629 fleiri íbúðir í byggingu en í mars, sem er 36% aukning. Aukningin er fyrst og fremst á þremur reitum, þ.e. Valsreit á Hlíðarenda, RÚV-reit og Spönginni í Grafarvogi. Þegar nágrannasveitarfélögin séu talin með eru samtals 5.799 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Það eru um 19% fleiri íbúðir en í talningu SI í mars. 

Lóðaskortur hækkar íbúðaverð 

Ingólfur segir í fréttinni að skortur á nýjum íbúðum sé ein helsta skýringin á því að íbúðaverð hefur hækkað umfram laun síðan 2016 og að lóðaskortur sé meginástæða lítils framboðs nýrra íbúða. Sú takmörkun á framboði hafi því verið stór þáttur í verðþróuninni. 

Áhrif fækkunar íbúða í leigu á fasteignaverð

Í niðurlagi fréttarinnar kemur fram að loknu erindi hafi Ingólfur verið spurður hvort fækkun íbúða sem leigðar eru til ferðamanna og brottflutningur erlends vinnuafls gæti haft áhrif á fasteignaverð. Hann hafi svarað að það væri hugsanlegt að nafnverð fasteigna gæti lækkað á höfuðborgarsvæðinu ef framboðið ykist umtalsvert vegna slíkra þátta. Fram hafi komið að töluvert færri Airbnb-íbúðir voru skráðar á Íslandi í sumar en sumarið 2017.

Morgunblaðið, 17. október 2018.

Morgunbladid-17-10-2018