Fréttasafn28. jún. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki Starfsumhverfi

Óstöðugleiki afar óæskilegur fyrir byggingariðnaðinn

Óstöðugleiki er afar óæskilegur, ekki síst fyrir fyrirtæki í byggingariðnaði, en niðursveiflan birtist nú m.a. í eftirspurn eftir íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Það er mjög óhentugt fyrir aðila sem eru í stórum langtímaverkefnum á þessu sviði að lenda í svona óstöðugleika. Það geta liðið nokkur ár frá því byggingaverkefni eru skipulögð þar til þau eru komin í söluvænlegt horf. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í frétt Baldurs Arnarsonar, blaðamanns, í Morgunblaðinu um íbúðamarkaðinn og nýhafna niðursveiflu.

Samdráttur í ferðaþjónustu hefur víðtæk áhrif

Ingólfur segir að efnahagssamdrátturinn komi meðal annars fram í því að íbúðir á svæðum þar sem ferðaþjónustan hafi verið umsvifamikil, ekki síst í miðbæ Reykjavíkur og á Suðurnesjum, seljist hægar. „Efnahagsstaða og efnahagshorfur kaupendahópsins hafa breyst talsvert. Það gerir það að verkum að það sem leit vel út í sölu þegar menn hófu íbúðaframkvæmdir lítur nú ekki eins vel út.“ 

Þegar blaðamaður spyr Ingólf hvers vegna spurn eftir íbúðum sé að breytast svona hratt bendir hann á að samdrátturinn í ferðaþjónustunni hafi víðtæk áhrif og að atvinnuleysi aukist hratt, samanber nýjar tölur frá Hagstofunni um að 10 þúsund manns hafi verið án vinnu í maí. Þá hafi hægt á vexti kaupmáttar ráðstöfunartekna og væntingar um hag heimilanna litið til næstu missera einnig breyst. Einnig hafi spár um áframhaldandi fjölgun ferðamanna snúist í fækkun og því hafi m.a. margar íbúðir sem leigðar hafi verið til ferðamanna komið í almenna sölu eða leigu. „Með breyttum efnahagsaðstæðum og efnahagshorfum er kaupendahópur fyrir íbúðir á þessum svæðum ekki jafn stór og gert var ráð fyrir. Þessi breyting á umhverfinu á skömmum tíma er því mjög óhentug fyrir greinina.“ 

Verðum að auka stöðugleikann

Í fréttinni segir að fram hafi komið í Morgunblaðinu í gær að ein af hverjum þremur nýjum íbúðum í miðborginni sé seld en þegar spurn eftir íbúðum sé áætluð fram í tímann sé horft til margra þátta, á borð við íbúafjölgun, kaupmátt, vaxtastig, verðbólgu og þróun fjölskyldustærðar. Þegar Ingólfur er spurður hvers vegna menn hafi misreiknað spurnina eftir íbúðum í miðborg Reykjavíkur þá segir hann að verkefni á þessu sviði taki oft mörg ár og sveiflurnar í íslensku hagkerfi komi yfirleitt ekki með löngum fyrirvara og að þessu sinni samdráttur í ferðaþjónustu í aðdraganda og í kjölfar falls WOW air. „Við verðum að auka stöðugleikann. Núna er verkefni hagstjórnar að milda niðursveifluna. Ríkið og ekki síst sveitarfélögin þurfa að gæta þess að mæta henni með hagstjórnaraðgerðum í gegnum ríkisfjármálin og sveitarfélögin í gegnum sín fjármál. Við höfum t.d. bent á að nú sé rétti tíminn til að fara í innviðaframkvæmdir og lækka álögur á fyrirtæki á borð við fasteignaskatta. Verkefnið er að mæta þessum bráðavanda.“ 

Áhyggjuefni ef viðbrögð verða ekki nægilega sterk og komi of seint

Þá kemur fram í fréttinni að hagspár hljóði flestar upp á að hagkerfið taki nokkuð kröftuglega við sér á næsta ári. Ingólfur segir það ekki sjálfgefið heldur háð því með hvaða hætti hagstjórnin bregst við. „Hættan er að í hagstjórninni vanmeti menn kraftinn í niðursveiflunni sem verði hugsanlega lengri og dýpri en nú er reiknað með í þeim spám sem lagðar eru til grundvallar ákvarðana í peningamálum og opinberum fjármálum. Áhyggjur okkar [hjá Samtökum iðnaðarins] eru að viðbrögðin séu ekki nægilega sterk og komi of seint til að bregðast við þessari stöðu.“

Morgunblaðið, 28. júní 2019.

Morgunbladid-28-06-2019