Fréttasafn



4. des. 2018 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Óstöðugleiki hefur neikvæð áhrif á framleiðnivöxt

Þegar Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, er spurður í ViðskiptaMogganum hverjir helstu kostir og gallar rekstrarumhverfisins séu svarar hann því til að kostirnir séu fjölmargir og birtist í því að Ísland sé eitt af þeim löndum þar sem efnahagsleg lífsskilyrði eru með því besta sem gerist en gallarnir séu síðan bæði áskoranir og tækifæri til framþróunar. Megi þar nefna að rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja hafi verið sveipað óstöðugleika um langa tíð sem hafi neikvæð áhrif á framleiðnivöxt og verðmætasköpun fyrirtækja hér á landi. Talsvert skorti á hagkvæmnina, þ.e. ýmis kostnaður sé hár hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Skattheimta á íslensk fyrirtæki sé t.d. há. Skilvirkni sé einnig ábótavant í mörgu er varðar starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja og helgast það m.a. af miklu umfangi hins opinbera hér á landi en það lætur nærri að fjórum krónum af hverjum tíu sem skapast í hagkerfinu sé ráðstafað af hinu opinbera. 

Þegar hann er spurður hvaða lögum hann myndi breyta ef hann værir einráður í einn dag segist hann myndi breyta þeim lögum sem þarf til að hrinda í framkvæmd þeim nær 70 tillögum til umbóta sem nefndar séu í skýrslu Samtaka iðnaðarins um atvinnustefnu fyrir Ísland. Tillögurnar miði að því að efla samkeppnishæfni landsins á sviði menntunar, innviða, nýsköpunar og starfsumhverfis hér á landi. Uppskeran yrði bætt lífskjör og öflugra samfélag.  

Í viðtalinu segir Ingólfur jafnframt frá því að síðasta ráðstefnan sem hann sótti hafi verið fundur Samtaka iðnaðarins um atvinnustefnu sem haldinn var í Hörpu fyrir skömmu. „Ég var raunar einn af framsögumönnum og kynnti skýrslu sem ber heitið „Mótum framtíðina saman – atvinnustefna fyrir Ísland“ sem m.a. hefur að geyma um 70 tillögur að umbótaverkefnum sem þyrfti að ráðast í til að efla samkeppnishæfni landsins. Þarna voru fjölmargir aðrir með framsögu og síðan pallborðsumræður á eftir. Fundurinn var vel sóttur og vakti talsverða athygli.“ 

ViðskiptaMogginn, 29. nóvember 2018.

Morgunbladid-29-11-2018-IB-