Fréttasafn



5. feb. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Óveðursský yfir Íslandi

Það eru óveðursský yfir Íslandi. En við höfum það í hendi okkar að taka ákvarðanir í dag sem gera það að verkum að það verði bjartari tíð; efnahagsstaðan batni og atvinnulífið dafni. Efnahagslegri endurreisn Íslands er lokið. Hún er yfirstaðin og hún tókst vonum framar. Nú þarf að efla samkeppnishæfni Íslands, fjárfesta í vexti framtíðar, draga úr álögum á fyrirtæki og tryggja aðgang að lánsfé svo fyrirtæki geti fjárfest. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í viðtali Baldurs Arnarsonar, blaðamanns, í ViðskiptaMogganum í dag.

Hann segir jafnframt að staðan sé að mörgu leyti sterk. „Skuldir heimila eru til dæmis lágar í sögulegu samhengi. Ríkissjóður stendur vel. Nettóskuldir eru um 20% af landsframleiðslu. Fyrirtæki skulda minna en oft áður og erlend staða þjóðarbúsins er jákvæð um fjórðung af landsframleiðslu, sem er einsdæmi, og hefur aldrei verið svona sterk, að minnsta kosti ekki síðan mælingar hófust. Ásamt vexti útflutningstekna, sem kemur auðvitað að miklu leyti frá ferðaþjónustunni á síðustu árum, er grunnurinn orðinn miklu traustari en áður.“

Krefjandi rekstrarskilyrði hjá félagsmönnum SI

Sigurður segir að taka beri hættumerkin alvarlega. „Grunnurinn er því traustur. Af hverju segi ég þá að það séu óveðursský? Það er vegna þess að eins og staðan er í dag gætum við verið að sigla inn í langt tímabil lítils hagvaxtar. Innan Samtaka iðnaðarins eru um 1.400 félagsmenn. Þetta er mjög breiður hópur. Hjá okkur eru fyrirtæki í byggingariðnaði og mannvirkjagerð, framleiðslu og hugverkaiðnaði. Lítil fyrirtæki og stór. Við fáum skýr skilaboð frá okkar félagsmönnum um að rekstrarskilyrðin séu krefjandi. Það eru flestir, ef ekki allir, að leita allra mögulegra leiða til að hagræða í rekstrinum, meðal annars með fækkun starfsfólks. Það auðvitað sýnir sig líka í vinnumarkaðstölunum; atvinnuleysi hefur farið vaxandi og það er samdráttur í hagkerfinu. Það var samdráttur á síðasta ári og væntanlega fram á mitt þetta ár, samkvæmt helstu spám, og gert er ráð fyrir litlum hagvexti í ár. Við höfum oft séð það svartara en þurfum að grípa til aðgerða til að bregðast við þessu, þannig að þessi staða dragist ekki um of á langinn.“ 

ViðskiptaMogginn / mbl.is / Frettabladid.is, 5. febrúar 2020.