Fréttasafn



19. jan. 2026 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Óvissa í alþjóðaviðskiptum gera áætlanir fyrirtækja erfiðari

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI segir í fréttum RÚV erfiðara fyrir fyrirtæki sem eiga í viðskiptum við Bandaríkin að gera áætlanir eftir tollahótanir Bandaríkjaforseta og að þetta undirstriki þá óvissu sem ríki í alþjóðaviðskiptum. „Og það virðist ekki lát á þeirri óvissu. Við trúum því að rétta leiðin til að leysa úr þessum málum sé með samtölum en ekki með þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið, það eru miklir viðskiptalegir hagsmunir í húfi á báða bóga.“

Sigurður segir á RÚV að flest ríki heims vinni að gerð viðskiptasamninga við Bandaríkin. „Ísland er þar með talið og við höfum bent á og höfum mikla trú á því að í því geti falist tækifæri í viðskiptum Íslands og Bandaríkjanna með gagnkvæman ávinning að leiðarljósi.“ 

Í frétt RÚV kemur fram að helsti útflutningur Íslands til Bandaríkjanna séu lækningavörur, lyf og sjávarafurðir. „Þó Evrópa sé okkar langstærsti markaður þá er Bandaríkjamarkaður sennilega mikilvægasti markaðurinn fyrir afurðir hugverkaiðnaðarins sem er fjórða stoð útflutnings og sú stoð sem gæti orðið verðmætasta stoðin við lok þessa áratugar. Þannig að út frá því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag.“ 

Þegar Sigurður er spurður hvort þetta hafi áhrif á getu fyrirtækja til að gera langtímaáætlanir svarar hann: „Fyrirsjáanleikinn er miklu minni en almennt í eðlilegu árferði þannig að þetta hefur auðvitað áhrif á það. Það er erfitt að gera plön þegar staðan er svona og óvissan svona mikil.“

RÚV, 18. janúar 2026.