Óvissa í skattframkvæmd dregur úr erlendri fjárfestingu
„Þetta er mál sem við höfum fylgst vel með og við munum fylgjast mjög vel með dómi Landsréttar þegar hann kemur,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Morgunblaðinu um mál Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. gegn ríkinu sem verður tekið fyrir í Landsrétti 5. febrúar. Hann segir þetta mál varða erlendar fjárfestingar hér á landi og fyrirsjáanleika. „Þetta snýr líka að atvinnustefnu stjórnvalda vegna þess að stjórnvöld hafa samhliða mótun atvinnustefnu boðað tímabil stórframkvæmda um allt land. Það er alveg ljóst að stjórnsýsluframkvæmd, í þessu tilviki skattframkvæmd, sem er ekki fyrirsjáanleg og veldur slíkri óvissu eins og þetta mál hefur valdið og raunar mörg önnur mál sem snúa að skattinum, er til þess fallin að draga úr erlendri fjárfestingu og raunar úr fjárfestingu og uppbyggingu yfirhöfuð. Það verða þá til minni verðmæti í samfélaginu, sem er eitthvað sem við þurfum á að halda. Þarna er mikið í húfi, ekki eingöngu fyrir þetta félag heldur mörg önnur fyrirtæki og hagkerfið heilt yfir og verðmætasköpun og samkeppnishæfni á Íslandi.“
Fordæmisgefandi mál
Einnig er rætt við Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, sem segir að skattframkvæmdin í þessu máli er að okkar mati röng. „Við töpuðum málinu fyrir héraðsdómi og við vonumst til þess að okkar rök nái í gegn hjá Landsrétti. Þetta er mjög fordæmisgefandi mál. Ástæðan er sú að þarna hefur Skatturinn tekið upp á því að breyta áralangri framkvæmd án þess að lög eða önnur fyrirmæli hafi breyst. Þetta hefur skapað algjöra óvissu, ekki bara fyrir þetta fyrirtæki sem á undir í þessu tiltekna máli, heldur fyrir mörg önnur fyrirtæki sem stunda viðskipti á milli landa innan samstæðu.“
Morgunblaðið, 28. janúar 2026.


