Fréttasafn24. apr. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál

Óvissu ýtt til hliðar og hægt að skipuleggja fram í tímann

„Aðalatriðið er að það tókst að semja, samningurinn er til langs tíma, með því er óvissu ýtt til hliðar og hægt að skipuleggja fram í tímann. Fyrirtæki munu bregðast við, hvert á sinn hátt en allar forsendur eru til staðar um að láta markmið samningsins um stöðugleika standa,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í frétt Markaðarins sem fylgir Fréttablaðinu í dag um hvernig félagsmenn samtakanna hafi tekið í nýju kjarasamningana. Hún segir að margir séu sáttir en eðlilega séu skiptar skoðanir. 

Hækkanir lenda þungt á framleiðslugeiranum

Guðrún segir það ekkert launungarmál að kjarasamningarnir komi mjög misjafnlega niður á fyrirtækjum og þessar hækkanir lendi þungt á framleiðslugeiranum og nefnir að framleiðslufyrirtæki hafi borið mikið af þeim kostnaði sem hlaust af gerð síðustu kjarasamninga árið 2015. „Þá héldu fyrirtæki í sér og voru orðin aðþrengd seinni part 2017 og á síðasta ári. Þegar við töluðum um að það væri ekki svigrúm þá vorum við að tala út frá þessum geirum. Launahækkanir geta því miður kallað á hækkun á vöruverði eða hagræðingaraðgerðir, sem við vitum öll hvað þýðir en viljum helst forðast. Við erum því miður búin að sjá á síðustu vikum að mörg fyrirtæki eru að hagræða hjá sér.“ 

Guðrún telur að samningarnir séu jákvæðir þegar heildarsamhengið sé skoðað. „Þarna eru atriði eins og stytting vinnutíma og fleira sem fyrirtæki geta notað til mótvægis við beinar launahækkanir. Þetta eru flóknir samningar og það er verkefni atvinnurekenda að notfæra sér þá til hins ýtrasta. Markmið samningsins um lægri vexti munu skila heimilum og fyrirtækjum miklum ávinningi ef það gengur eftir.“ 

Fréttablaðið / Frettabladid.isVísir, 24. apríl 2019.