Pólskir skólastjórnendur heimsækja Samtök iðnaðarins
Samtök iðnaðarins tóku á móti hópi skólastjórnenda og sérfræðinga í starfsmenntun frá Póllandi í nóvember. Hópurinn var á vegum Erasmus+ landsskrifstofunnar í Póllandi – Fundacja Rozwoju Systemu Edukacji (FRSE). FRSE er opinber pólsk stofnun sem fer með stjórnsýslu Erasmus+ á landsvísu og vinnur jafnframt að þróun menntakerfisins, alþjóðasamstarfi og innleiðingu nýsköpunar í skólastarfi.
Alls var um að ræða 13 skólastjóra og kennslufulltrúa úr VET-skólum (starfs- og tæknimenntun) víðs vegar að úr Póllandi og heimsótti hóðurinn Ísland til að kynna sér skipulag og þróun starfsnáms hér á landi. Sérstök áhersla var lögð á iðn- og tækninám, auk þess sem gestirnir vildu fræðast um hvernig íslensk fyrirtæki taka á móti erlendum starfsnemum í gegnum Erasmus+.
43 löggiltar iðngreinar á Íslandi í samanburði við 220 afmarkaðar greinar í Póllandi
Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, tók á móti hópnum og fór yfir uppbyggingu íslensks iðnnáms. Hún kynnti hvers vegna við erum bara með 43 löggiltar iðngreinar vegna fámennis á Íslandi í samanburði við Pólland þar sem iðngreinar geta skipts niður í 220 afmarkaðar greinar. Einnig kynnti Hulda samspil skólakerfis og atvinnulífs, rafræn ferilbók, hlutverk fyrirtækja í þjálfun nemenda og þær stoðir sem mynda gæðaþróun starfsnáms á Íslandi. Hún fór yfir fyrirkomulag sveinsprófs og meistaraskóla, ásamt þeim kröfum sem gerðar eru til íslenskra iðnmeistara bæði í fagi og kennslu. Gestirnir sýndu mikinn áhuga á hvernig skýrar fagkröfur og þétt utanumhald stuðla að gæðum og faglegum styrk íslensks iðnnáms.
Ennfremur var rætt um samstarf fyrirtækja og skóla og þau tækifæri sem íslensk fyrirtæki hafa til að taka á móti starfsnemum frá öðrum Evrópulöndum. Hópurinn hafði áhuga á hvernig þetta samstarf er skipulagt og hvað mætti yfirfæra inn í pólskan VET-geira.
Heimsóknin var hluti af stærra verkefni hjá pólsku landsskrifstofunni sem miðar að því að efla gæði starfsmenntunar og styrkja alþjóðlegt samstarf í VET-geiranum. Að sögn hópsins hafa íslensku fyrirmyndirnar ekki síst öflugt samstarf fyrirtækja og skóla og vel skilgreind fagleg ábyrgð iðnmeistara mikla þýðingu fyrir þróunarvinnu þeirra heima fyrir.
Pólskir skólastjórnendur í heimsókn hjá SI. Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, sem er fyrir miðju í fremstu röð tók á móti hópnum.

