Fréttasafn



9. nóv. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Prentsmiðjur til fyrirmyndar

Prentsmiðjurnar eru til fyrirmyndar er fyrirsögn á viðtali sem birt er í Fréttablaðinu í dag við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, viðskiptastjóra á framleiðslu- og matvælasviði Samtaka iðnaðarins. Í inngangi segir að fáar starfsgreinar hafi gengið í gegnum jafn miklar breytingar á undanförnum árum og prentiðnaðurinn, vöruframboðið hafi aukist mikið, atvinnutækifærin innan greinarinnar séu miklu fjölbreyttari en áður og mikið átak hafi verið unnið í umhverfismálum. Jóhanna Klara segir að prentsmiðjur landsins séu í dag allt önnur fyrirtæki en fyrir 10-20 árum. Þær séu orðnar mjög tæknivædd framleiðslufyrirtæki sem geti boðið viðskiptavinum sínum fjölbreyttara vöruúrval og lausnir. Það sé mikið að gera í stafrænni breytilegri prentun þar sem hvert upplag er sérstakt, upplögin orðin minni og jafnvel meira lagt í hvern grip sem gefi mikla möguleika í notkun prentunar í alls kyns markaðssetningu. Hún nefnir einnig annan vaxtarsprota í greininni sem eru umbúðir. „Það er orðin mikil fjölbreytni í prentun þeirra, framleiðslu og hönnun. Mikil þróun og gróska er í umbúðaprentun hér á landi og má m.a. tengja það við metnaðarfulla vöruþróun í matvæla- og ferðamannaiðnaði.“ 

Í viðtalinu kemur fram að störf í prentiðnaði séu orðin mjög fjölbreytt og hafi tekið talsverðum breytingum undanfarin ár. Hún segir mikilvægt fyrir fyrirtækin að halda í rótgrónari þekkingu á borð við forvinnslu prentgripa, prentun og bókband en svo hafi einnig verið aukin áhersla á aðkomu hönnuða, tæknimanna, gæðastjóra og markaðs- og sölufólks. Jóhanna Klara segir mikilvægt að iðnaðurinn hér á landi sé samkeppnishæfur og að fyrirtækin búi við gott starfsumhverfi og stöðugleika. „Við sjáum dæmi um stór prentverk sem fara erlendis eingöngu vegna verðs og þá oft á kostnað gæða og umhverfissjónarmiða. Sá misskilningur hefur líka verið ríkjandi að pappír sé ekki umhverfisvæn afurð og það verður áfram áskorun fyrir greinina að koma réttum staðreyndum á framfæri. Allur pappír sem unninn er til pappírsgerðar er unninn úr 100% sjálfbærum nytjaskógum í Evrópu eða N-Ameríku. Enginn pappír er unninn úr regnskógum Amazon.“

Lesa má viðtalið í heild sinni í Fréttablaðinu .