Fréttasafn29. jan. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Prentun og miðlun lykill að framförum um margra alda skeið

Dagur prents og miðlunar sem er samstarfsverkefni Iðunnar, Grafíu og Samtaka iðnaðarins fór fram síðastliðinn föstudag þar sem boðið var upp á fjölmörg erindi yfir daginn og endað á léttu nótunum með uppistandaranum Ara Eldjárn. 

Í ávarpi sem Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, flutti af tilefni dagsins kom fram að prentun og miðlun væru ekki einungis mikilvægar greinar í dag heldur hafi þær verið lykill að framförum um margra alda skeið. Þess vegna skipti það máli fyrir greinina að fólk hittist og deildi þekkingu sín á milli, skiptist á hugmyndum og fræðist um nýjungar.

Alltaf þörf fyrir iðnmenntað fólk en mikill skortur

Sigurður sagði Samtök iðnaðarins vinna að umbótum á íslensku samfélagi og að iðnmenntun væri eitt af stóru áherslumálum hjá SI. „Það verður alltaf þörf fyrir iðnmenntað fólk þrátt fyrir miklar tækniframfarir og breytingar í samfélaginu, engu að síður er mikill skortur á iðnmenntuðu fólki og því mikilvægt að efnt verði til meira samstarfs við atvinnulífið til þess að bæta úr.“

Prentiðnaðurinn verið til fyrirmyndar í umhverfismálum

Sigurður nefndi einnig að umhverfismál væru ekki einungis náttúruvernd heldur skipti framlag atvinnulífsins miklu máli. „Prentiðnaðurinn hefur sinnt umhverfismálum vel og var í raun fyrsti geirinn sem hreinsaði til í óæskilegum efnum hér á landi með eftirtektarverðum árangri. Þannig hefur þessi grein iðnaðar verið öðrum fyrirmynd.“

Þá sagði hann það vera ánægjulegt að sjá að nýjum hugmyndum og nýjungum væri tekið fagnandi í atvinnugreininni. Hann nefndi í því sambandi að nú þegar horft væri til fjórðu iðnbyltingarinnar og þróunar sem hafi áhrif á allar greinar þá hafi Iðan og Samtök iðnaðarins staðið fyrir vel sóttri fundarröð um fjórðu iðnbyltinguna í haust.
Dagur-prents-26-01-2018
Dagur-prents1
Dagur-prents2
Dagur-prents5
DAgur-prents3