Fréttasafn



8. júl. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Prótein- og trefjarík súkkulaðikaka sigrar í nýsköpunarkeppni

„Keppnin var hörð í ár þar sem öll lið mættu til leiks með afar frambærilegar og nýstárlegar vörur sem erfitt reyndist að gera upp á milli. Vörurnar voru allt frá óáfengum kokteil (e. mocktail) út í nýstárlega gerð af hefðbundnum matvælum eins og pasta og ís,“ seg­ir Sigurður Helgi Birgisson, viðskiptastjóri hjá SI, á mbl.is en Samtök iðnaðarins halda utan um nýsköpunarkeppni matvæla á Íslandi og öðlast sigurliðið þátttökurétt í aðalkeppni Ecotrophelia Europe, þar sem keppendur frá 14 Evrópuríkjum etja kappi í nýsköpun vistvænnar matvælaframleiðslu. 

Sigurvegari keppninnar sem fór fram í Húsi atvinnulífsins var „Veggie Bliss“, súkkulaðikaka sem segir á vef mbl.is að sé bæði óvenju prótein- og trefjarík enda sé hún m.a. unnin úr stönglum spergilkáls sem annars færu forgörðum við ýmis konar matvælaframleiðslu. Súkkulaðikakan sé því ekki aðeins afar rík af næringarefnum heldur spornar að auki við matarsóun með nýtingu afgangs hráefnis. Liðið sem stendur að baki Veggie Bliss er skipað matvælafræðinemunum Baldri Erni Þórarinssyni og Ingu Dóru Kristjánsdóttur og iðnaðarlíftækninemanum Ramon Oziel Medina Garcia við HÍ. 

Sigurður Helgi segir matvælaáfanga í Háskóla Íslands og keppnina veita nemendum dýrmæta reynslu og tækifæri til að gera hugmyndir sínar að veruleika. „Mörg af stærstu matvælaframleiðslufyrirtækjum Evrópu fylgjast grannt með Evrópukeppninni í leit að nýjum og frambærilegum vörum svo möguleiki keppenda á að koma hugmyndum sínum á markað er afar raunhæfur.“

Á vef mbl.is er hægt að lesa nánar um keppnina. 

mbl.is, 7. júlí 2024. 

Sigurður Helgi Birgisson, viðskiptastjóri hjá SI, ásamt sigurliðinu og dómnefnd; Andrés Jakob Guðjónsson, Baldur Örn Þórarinsson, Ramon Oziel Medina Garcia, Inga Dóra Kristjánsdóttir, Auðjón Guðmundsson, Sjöfn Þórðardóttir og Þóra Valsdóttir.

Keppendur-og-kennarar-2024Keppendurnir sem tóku þátt í keppninni í ár ásamt kennurum.