Fréttasafn



12. mar. 2021 Almennar fréttir Menntun

Ráðherra og skólameistari gestir á 400. stjórnarfundi SI

Stjórn Samtaka iðnaðarins hélt sinn 400. fund í gær. Fundurinn var helgaður menntamálum og var hann haldinn í húsnæði Tækniskólans, hátíðarsal Stýrimannaskólans við Háteigsveg. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, og Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, voru gestir fundarins.

Samtök iðnaðarins hafa átt gott samstarf við stjórnvöld um umbætur í menntamálum með áherslu á iðn- og verknám annars vegar og á tæknimenntun á háskólastigi hins vegar þar sem horft er til STEM greina (Science-Technology-Engineering-Mathematics). Menntamálaráðherra greindi frá áherslum sínum á kjörtímabilinu í þá veru. Um þessar mundir er verið að innleiða einhverjar mestu umbætur í iðnnámi í áratugi með reglugerð ráðherra um vinnustaðanám þar sem óvissu er eytt og námi flýtt sem jafnar mun á iðnnámi og bóknámi. Þá eru í farvatninu breytingar á lögum sem opna á aðgengi iðnmenntaðs fólks að háskólanámi í ríkari mæli. Þessar breytingar hvetja ungt fólk til að huga frekar að iðnnámi og munu vonandi auka aðsókn enn frekar. Húsnæðismál Tækniskólans voru rædd á fundinum en forsvarsmenn skólans hafa áform um að byggja yfir starfsemina þannig að hún verði í einni byggingu í stað níu bygginga víðs vegar um höfuðborgarsvæðið í dag. Ráðherra lýsti yfir áhuga sínum á að ryðja hindrunum úr vegi svo áformin geti orðið að veruleika. Samtök iðnaðarins hafa talað ötullega fyrir þessum áformum og var meðal annars fjallað um þau í ályktun Iðnþings.

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, sagði frá aukinni aðsókn í skólann, frá byggingaráformum og þeim áskorunum sem framundan eru varðandi breytingar á vinnustaðanámi. Nemendum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum en skólinn býður upp á mjög fjölbreytt nám sem er góður undirbúningur fyrir störf í atvinnulífinu. Undanfarin tvö ár hefur verið lagður grunnur að byggingu nýs Tækniskóla og standa vonir til þess að af þeim áformum verði á næstu árum. Slíkt yrði mikil lyftistöng fyrir verknám á Íslandi en Tækniskólinn er stærsti framhaldsskóli landsins. Á fundinum var frumsýnt myndband um sögu skólans og byggingaráformin. Þær breytingar á vinnustaðanámi sem menntamálaráðherra hefur innleitt gera ráð fyrir því að skólar beri ábyrgð á vinnustaðahluta verknáms en ekki nemandinn. Ef nemendur komast ekki á samning hjá iðnmeistara þá er hægt að fara svokallaða skólaleið. Óvissu um námslok er þar með eytt og hindrunum rutt úr vegi. Skólarnir vinna nú að innleiðingunni þannig að þeir verði tilbúnir þegar skólastarf hefst næsta haust. Vonir standa til að brottnám muni minnka verulega með þessum breytingum. 

Stýrimannaskólinn við Háteigsveg var tekinn í notkun árið 1945 en ári fyrr, lýðveldisárið, lagði þáverandi forseti Íslands, Sveinn Björnsson, hornstein að byggingunni. Stjórn Samtaka iðnaðarins kynnti sér skólastarf í húsnæðinu fyrir fundinn og hitti nemendur í stafrænni hönnun.

Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson.

Á myndinni hér fyrir ofan eru, talið frá vinstri, Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, Sigurður R. Ragnarsson, varaformaður SI, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Si_stjornarfundur_11032021-17Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.

Si_stjornarfundur_11032021-8

Si_stjornarfundur_11032021-22Egill Jónsson hjá Össuri og Jónína Guðmundsdóttir hjá Coripharma.

Si_stjornarfundur_11032021-1Hildur Ingvarsdóttir hjá Tækniskólanum.

Si_stjornarfundur_11032021-10Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.

Si_stjornarfundur_11032021-15Ágúst Þór Pétursson hjá Mannviti.

Si_stjornarfundur_11032021-12Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.

Si_stjornarfundur_11032021-19Hildur Ingvarsdóttir hjá Tækniskólanum og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir hjá CRI.

Si_stjornarfundur_11032021-18Magnús Hilmar Helgason hjá Launafli.

Si_stjornarfundur_11032021-16Valgerður Hrund Skúladóttir hjá Sensa. 

Si_stjornarfundur_11032021-11Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI, og Guðrún Halla Finnsdóttir hjá Norðuráli.

Si_stjornarfundur_11032021-3Vignir Steinþór Halldórsson hjá MótX, Magnús Hilmar Helgason hjá Launafli og Ágúst Þór Pétursson hjá Mannviti.

Si_stjornarfundur_11032021-14Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Árni Sigurjónsson, formaður SI.