Fréttasafn



25. nóv. 2021 Almennar fréttir Menntun

Ráðherra opnar nýja skrá fyrir vinnustaðanám

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði svokallaða birtingarskrá í húsakynnum Iðunnar í dag. Þessi nýja skrá nær yfir fyrirtæki, meistara og stofnanir sem bjóða vinnustaðanám og  verður hluti af rafrænni ferilbók. Þetta kemur fram á vefsíðu Iðunnar. Þar segir að opnun skrárinnar marki tímamót í þjónustu til nemenda. Um þessar mundir sé verið að innleiða rafræna ferilskrá í öllu starfsnámi. Þar fari samskipti á milli skóla og vinnustaðar fram og þar sé vitnisburðurinn um frammistöðu nema á vinnustað skráður. Vinnustaðanám í öllum iðngreinum hafi verið kortlögð og sú hæfni sem áskilin sé fyrir hverja grein hafi verið brotin niður í verkþætti sem metnir séu á hverjum vinnustað og færð til bókar í rafrænni ferilbók

Á myndinni eru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Svanur Grétarsson, framkvæmdastjóri MótX, sem var fyrstur til að skrá fyrirtæki í birtingarskrána.

Starfsnámsnemum fjölgað um 30% undanfarin 5 ár

Á vef Iðunnar segir einnig að nú ráði hæfni för en ekki fjöldi vikna á vinnustað líkt og áður hafi verið. Nemar eigi því möguleika á að útskrifast fyrr en áður. Þá hafi verið opnað fyrir þá tímabæru breytingu að starfsnámsnemar geti að lokinni útskrift fengið inngöngu í háskóla en síðastliðið vor voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um háskóla sem opni fyrir að nemar með starfsmenntun geti hafið nám á háskólastigi. Samhliða þessu hafi verið ráðist í sérstakt kynningarátak á starfsnámi. Árangurinn hafi ekki látið á sér standa því undanfarin fimm ár hafi starfsnámsnemum fjölgað um 30%.

Árangur farsællar samvinnu atvinnulífs og skóla

Jafnframt kemur fram á vefsíðu Iðunnar að breytingarnar á aðbúnaði nema í iðngreinum séu árangur farsællar samvinnu atvinnulífs og skóla. Lengi hafi verið bent á nauðsyn þess að fjölga möguleikum til starfsnáms hér á landi, einfalda umsýslu þess og gera kerfið í kringum það skilvirkara með það að markmiði að halda betur utan um nema og veita faglegri þjónustu. Með þetta að leiðarljósi hafi mennta- og menningarmálaráðuneytið ráðist í umfangsmikla vinnu þar sem fjölmargir hagaðilar hafi verið kallaðir að borðinu. Þá segir að þessi aukna þjónusta, fagmennska og samvinna muni minnka brotthvarf úr starfsnámi sem muni skila margháttuðum ávinningi fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild.