Fréttasafn20. maí 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Ráðherra segir þörf á að sameina málaflokka í einu ráðuneyti

Í Fréttablaðinu í dag segir Sgurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að þörf sé á því að sameina þá málaflokka sem snúa að uppbyggingu húsnæðis í einu ráðuneyti á næsta kjörtímabili „Mér finnst þörf á því að ráðast í ákveðna uppstokkun á stjórnkerfinu á næsta kjörtímabili og þetta er eitt af því mikilvægasta sem þarf að skoða. Þá væri öll umgjörð húsnæðismarkaðarins undir einum hatti og við værum í betra færi til þess að greina það sem bjátað á í húsnæðismálum. Það er ekki nægilega góð þekking á eða yfirsýn yfir þennan málaflokk eins og staðan er í dag,“ segir Sigurður Ingi.

Í fréttinni er vísað til greinar framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins þar sem þeir gagnrýndu harðlega óskilvirkt og flókið starfsumhverfi byggingarmála og sögðu það hækka kostnað og valda því að húsnæði væri dýrara en það þyrfti að vera með miklum áhrifum á efnahagslífið í heild, meðal annars vinnumarkaðinn. „Umgjörð byggingarmarkaðarins er því beinlínis áhættuþáttur í hagstjórn á Íslandi.“  Í Fréttablaðinu segir að framkvæmdastjórarnir leggi til að sameina þá málaflokka sem snúa að uppbyggingu í einu ráðuneyti. Þannig fengist yfirsýn og skýr ábyrgð á málaflokknum: „Það er best gert með því að færa húsnæðis- og byggingamál yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og færa skipulagsmál yfir í sama ráðuneyti. Í kjölfar kosninga er tækifæri til þessara breytinga. Þannig yrði til öflugt innviðaráðuneyti sem bæri ábyrgð á uppbyggingu.“

Erfitt að greina vandann vegna skorts á þekkingu og yfirsýn

Í fréttinni segir Sigurður Ingi að skortur á þekkingu og yfirsýn valdi því að erfitt sé að greina vandann. „Maður heyrir misvísandi skýringar. Ein er sú að það vanti verulegan fjölda íbúða, sérstaklega í Reykjavík, vegna þess að eftirspurnin er svo mikil. Aðrir segja að ástæðan sé ekki sú að þörf sé á enn fleiri íbúðum heldur frekar að margir séu að einungis kaupa íbúðir til að safna eignum og færa fjármuni sína í steinsteypu,“ segir Sigurður Ingi í Fréttablaðinu.

Fréttablaðið, 20. maí 2021.