Fréttasafn12. jan. 2018 Almennar fréttir Menntun

Ráðherra skrifar um eflingu iðnnáms

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að efla eigi iðn-, verk- og starfsnám í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags og til að takast á við þær breytingar sem eru fram undan á vinnumarkaðnum og hefur stefna verið mörkuð í þessum tilgangi sem má skipta upp í þrjá meginþætti. Þetta kemur fram í grein Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. 

Lilja-AlfredsdottirHún segir að í fyrsta lagi sé horft til uppbyggingar náms og hvernig megi efla það, í öðru lagi eigi að styrkja allt utanumhald með verk- og starfsþjálfun og í þriðja lagi eigi að bæta og einfalda aðgengi nemenda að verk- og starfsnámi. „Tæknibyltingin er í senn mikið tækifæri fyrir samfélög en um leið áskorun. Þess er krafist af okkur að við tileinkum okkur ákveðna færni til að leysa vandamál á nýjan hátt og með skilvirkari leiðum en við þekkjum fyrir. Þess vegna er brýnt að menntakerfið okkar sé í fremstu röð til að geta sýnt þá framsýni sem nauðsynlegt er til að styrkja samkeppnishæfni þjóðarinnar.“


 

Mikill ávinningur  af rafrænni ferilbók 

Í grein sinni segir Lilja að ávinningur af rafrænni ferilbók sé mikill en um sé að ræða hugbúnað sem leysir af hólmi ferilbækur í pappírsformi. „Rafræn ferilbók er mikilvægur liður í því að einfalda utanumhald og auka gæði í verk- og starfsþjálfun.“ Hún segir að fyrir nemendur muni hún auka fjölbreytni náms og námsmats í starfsþjálfun og fyrir atvinnulífið sé ábatinn sá að samskiptin við skólakerfið verða skilvirkari og einfaldari. Lilja segir í niðurlagi greinarinnar ánægjulegt að veita þessu máli brautargengi þar sem þetta sé í samræmi við það markmið stjórnvalda að efla iðnnám í landinu.

Hægt er að lesa greinina í heild sinni á Vísi.