Ráðherrar gangi á undan með góðu fordæmi og velji íslenskt
Það vakti athygli nýlega þegar heilbrigðisráðuneytið valdi innflutt húsgögn inn í ráðuneytið. Með því að velja frekar íslenska framleiðslu og hönnun er stutt við íslenskt hugvit og hugmyndaauðgi. Með slíku vali taka stjórnvöld þátt í því að byggja upp iðnað á grundvelli handverks, hugvits og hönnunar auk þess að fjölga sendiherrum Íslands. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að það færi vel á því að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands veldu frekar íslenska hönnun og framleiðslu umfram erlenda og sýndu þar með vilja í verki. „Við þurfum öll að taka þátt í því að rækta vörumerkið Ísland og auka þannig eftirspurn eftir því sem við höfum upp á að bjóða. Það er ekki eftir neinu að bíða, hefjumst handa núna.“
Meiri verðmæti verða til sem skilar sér í auknum lífsgæðum
Sigurður segir að það sé sameiginlegt verkefni allra landsmanna, fyrirtækja, stofnana og hins opinbera á næstu árum að byggja upp orðspor Íslands. „Takist það þá skilar það sér í aukinni eftirspurn eftir íslenskum vörum og þjónustu, vekur áhuga erlendra ferðamanna á landinu sem og áhuga erlendra fjárfesta á íslensku atvinnulífi. Þar með fæst meira fyrir vöru og þjónustu, meiri verðmæti en ella verða til og það skilar sér í auknum lífsgæðum.“
Hann bendir á að stefna hins opinbera í innkaupum skipti miklu máli í þessu samhengi þar sem hið opinbera eyði 45 krónum af hverjum 100 krónum í hagkerfinu og að framkvæmd útboða megi ekki hygla innfluttum vörum á kostnað innlendra. „Því miður hefur borið á því í útboðum hins opinbera að óskað er eftir tilteknum húsgögnum, jafnvel þekktri erlendri hönnun. Innlend hönnun og framleiðsla stendur þar með verr að vígi og fyrirætlanir um að byggja vöxt á hugviti, hönnun og framleiðslu ganga ekki eftir.“
Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.