Fréttasafn



27. nóv. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Ráðin verkefnastjóri undirbúnings jarðvinnunáms

Ásdís Kristinsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri undirbúnings fyrir nýtt nám í jarðvinnu sem ætlað er að stuðla að nýliðun í faginu og auka gæði, skilvirkni og tækninýjungar í atvinnugreininni. Verkefni Ásdísar er að koma á formlegu jarðvinnunámi á framhaldsskólastigi sem undirbýr nemendur undir margvísleg störf við jarðvinnu og getur jafnframt verið grunnur frekara náms. Að undirbúningnum standa Samtök iðnaðarins, Félag vinnuvélaeigenda, Tækniskólinn og mennta- og menningarmálaráðuneytið sem eiga fulltrúa í stýrihóp verkefnisins.

Ásdís er með BSc í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og MSc í vélaverkfræði frá Canterbury University á Nýja Sjálandi. Hún hefur áratuga reynslu úr orku- og veitugeiranum en þar starfaði hún lengst af sem forstöðumaður Verkefnastofu og síðar sem forstöðumaður Tækniþróunar Veitna. Ásdís hefur setið í stjórnum Gagnaveitu Reykjavíkur, Keilis – miðstöðvar fræða og vísinda, Metans og Nýorku. Hún starfar nú sem stjórnunarráðgjafi hjá Gemba og kennir straumlínustjórnun við Háskóla Íslands.

Viðskiptablaðið, 28. nóvember 2019.

Frá undirritun samkomulags þeirra sem standa að undirbúningnum. Á myndinni eru, talið frá vinstri, Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Óskar Sigvaldason, formaður Félags vinnuvélaeigenda, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.