Fréttasafn



7. feb. 2017 Almennar fréttir Nýsköpun

Ráðstefna um markaðsmál sprota- og nýsköpunarfyrirtækja

Á ráðstefnu viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og Icelandic Startups verður leitað svara við því hvort góðar lausnir selji sig sjálfar, eða hvort íslensk nýsköpunarfyrirtæki þurfi að auka áherslu sína á markaðsmál og uppbyggingu alþjóðlegra vörumerkja, allt frá fyrstu skrefunum í nýsköpunarferlinu. Ráðstefnan sem er með yfirskriftinni „Þetta selur sig bara sjálft!“ fer fram í stofu V101 í HR þriðjudaginn 14. febrúar kl. 8-12.

Í tilkynningu frá HR segir að í íslenskum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum fari fram öflugt þróunarstarf á fjölbreyttum vörum og þjónustu. Mörg fyrirtæki stefni á lausn á tæknilegum vandamálum, til dæmis í upplýsingatækni eða með hönnun á nýjum tæknibúnaði. Önnur fyrirtæki einbeiti sér að þróa nýjar vörur fyrir neytendamarkað sem byggja á íslenskri hönnun, og/eða eru úr íslensku hráefni. En spurt er hvort markaðsmálin fái nægjanlega athygli hjá íslenskum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Er þekking á því hversu mikla fjárfestingu þarf í markaðsstarf til að ná árangri á alþjóðlegum markaði? Horfa íslensk nýsköpunarfyrirtæki nógu mikið út fyrir landsteinana? 

Fyrirlesarar eru íslenskir og erlendir úr nýsköpunargeiranum sem hafa reynslu af því að koma nýrri vöru og þjónustu á alþjóðlegan markað og hafa fengið að kynnast því hvað þarf til. Hluti erinda og umræður verða á ensku.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Oliver Luckett, raðfrumkvöðull og fjárfestir sem stofnað hefur og selt  velheppnuð nýsköpunarfyrirtæki í Bandaríkjunum, m.a. theAudience og DigiSynd. Oliver er höfundur bókarinnar The Social Organism: A Radical Understanding of Social Media to Transform Your Business and Life. Hann fluttist nýlega til Íslands þar sem hann tekur virkan þátt í nýsköpunarumhverfinu.

Fundarstjóri og stjórnandi umræða er Eliza Reid, forsetafrú.

Dagskrá

  • 8:00        Léttur morgunverður
  • 8:30        Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups Setning
  • 8:35        Hallur Þór Sigurðarson, aðjúnkt í nýsköpunarfræðum við viðskiptadeild HR Vaxtarhormón sprotans: markaður og endurgjöf
  • 8:55        Oliver Luckett, stofnandi og eigandi EFNI. Raðfrumkvöðull og fjárfestir. Icelanders don't know what they have
  • 9:30        Hjálmar Gíslason, stofnandi Datamarket og framkvæmdastjóri hjá Qlik Everything is sold, nothing is bought
  • 9:50        Kaffihlé
  • 10:15     Paula Gould, Principal Frumtak Ventures I made something amazing...and nobody knows!
  • 10:35     Björn Örvar, stofnandi og framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar ORF Líftækni Úr tilraunastofunni í Harrods og Vogue – markaðssaga BIOEFFECT
  • 10:55     Margrét Arna Hlöðversdóttir, stofnandi og eigandi As we grow  Mikilvægi branding í alþjóðlegu markaðsstarfi - upplifun As We Grow              
  • 11:15     Umræður


Skráning.