Fréttasafn8. apr. 2024 Almennar fréttir Menntun

Ráðstefna um gæðastarf í leik- og grunnskólum

Skólaráðgjafaþjónustan Ásgarður stendur fyrir ráðstefnu um gæðastarf í leik- og grunnskólum í Hofi á Akureyri föstudaginn 12. apríl kl. 9. Á ráðstefnunni koma fram kennarar, skólastjórnendur, ráðgjafar og stjórnendur sveitarfélaga sem þekkja vel notkun gæðaviðmiða til þess að efla gæði skólastarfs. Í kynningu á ráðstefnunni segir að fjallað verði um hagnýt ráð og leiðbeiningar á mannamáli sem henti öllum sem vilji auka gæði nútíma skólastarfs. Kristrún Lind Birgisdóttir eigandi og framkvæmdastjóri Ásgarðs stýrir ráðstefnunni. 

Fulltrúi SI, Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, er meðal frummælenda á ráðstefnunni þar sem hún mun fjalla um nýsköpun í grunnskólum og samþættingu nýsköpunar, samfélags og atvinnulífs. 

Á vef Ásgarðs er hægt að nálgast nánari upplýsingar um ráðstefnuna.