Fréttasafn8. mar. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Samtök sprotafyrirtækja

Ræddu fyrstu sporin í fjárfestingum sprotafyrirtækja

Samtök sprotafyrirtækja, SSP, stóðu fyrir opnum fundi um fjárfestingar í sprotafyrirtækjum síðastliðinn fimmtudag. Á fundinum var sjónum beint að fyrstu stigum í sprotafyrirtækjum og markmiðið að kynna sprotafyrirtæki fyrir ýmsum hvötum og leiðum til þess að tryggja fjárfestingu og þannig koma öflugu verkefni af stað.

Ragnheiður H. Magnúsdóttir, kynnti nýstofnaðan englafjárfestasjóð, Nordic Ignite. Sjóðurinn fjárfestir í sprotafyrirtækjum á fyrstu stigum. Í máli hennar kom fram að vöntun hafi verið á slíku fjármagni hér á landi að undanförnu og sjóðurinn því velkomin viðbót í flóru þeirra fjárfestingasjóða sem nú starfa á Íslandi. Því næst steig Ásgeir Skorri Thoroddsen, ráðgjafi og lögfræðingur hjá KPMG, á stokk og sagði frá skattahvötum til hlutabréfakaupa einstaklinga en það er úrræði sem getur nýst sprotafyrirtækjum við að sækja fjárfesta að fyrirtæki á fyrstu stigum. Þá kynnti Ásgeir breytingar á löggjöf um kauprétti handa sprotafyrirtækjum.

Að kynningum loknum tóku við pallborðsumræður en Alexander Jóhönnuson, framkvæmdastjóri og stofnandi Ignas, stýrði þeim. Gestir í pallborði voru Karl Ágúst Matthíasson, framkvæmdastjóri DTE Technologies, Guðbjörg Rist, framkvæmdastjóri Atmonia, Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Linda Björk Ólafsdóttir, englafjárfestir og framkvæmdastjóri Tennin ehf. Karl Ágúst og Guðbjörg eiga það sameiginlegt að reka sprotafyrirtæki sem sótti fjárfestingu snemma sem hefur stutt við reksturinn. Þær Hrönn og Linda leyfðu fundargestum að heyra af reynslu fjárfesta. Í pallborðsumræðunum var farið yfir hvað væri mikilvægt að hafa í huga þegar kemur að samtölum við fjárfesta.

Fida Abu Libdeh, nýendurkjörinn formaður Samtaka sprotafyrirtækja og framkvæmdastjóri GeoSilica, var fundarstjóri. Á fundinum fór hún yfir stefnumál SSP og hvatti fundargesti sem ekki þekkja til samtakanna til þess að kynna sér þau. 

Hér er hægt að nálgast ársskýrslu SSP.

Mynd4_1678267074484Fida Abu Libdeh, formaður Samtaka sprotafyrirtækja.

Mynd1_1678267103599